Umhverfis-og orkustofnun veitti Landsvirkjun í dag virkjunarleyfi til bráðabirgða vegna undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun. Leyfið tekur til þeirra undirbúningsframkvæmda sem þegar voru hafnar og gildir í sex mánuði frá útgáfu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun. Virkjunarleyfi til bráðabirgða er veitt í kjölfar þess að Hæstiréttur staðfesti fyrir mánuði síðan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar.
Landsvirkjun segir að leyfðar undirbúningsframkvæmdir felist í uppsetningu vinnubúða, aðkomuvegi og annarri vegagerð innan framkvæmdasvæðis og efnisvinnslu fyrir vegagerð auk raf-, fjar- og hitavatnsveitu vinnubúða- og framkvæmdasvæðis.
„Þessar framkvæmdir eru ekki í eða við vatnsfarveg og munu því hvorki hafa bein né óbein áhrif á vatnshlot.“
Landsvirkjun hyggst nú sækja um framkvæmdaleyfi til Rangárþings ytra svo hægt sé að halda áfram með þær undirbúningsframkvæmdir sem hafnar voru og áformað er að ljúki fyrir áramót í samræmi við áætlanir.
Landsvirkjun hefur þegar óskað eftir því að Umhverfis- og orkustofnun hefji á ný málsmeðferð við afgreiðslu á umsókn um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar og um heimild til breytingar á vatnshloti.