Viðskiptablaðið hefur undanfarnar vikur fjallað um íslensku heimskonuna Sonju de Zorrilla og styrktarsjóð sem stofnaður var í hennar nafni að henni látinni. Í síðustu viku sagði John Ferguson, sem var lögfræðingur Sonju og annar sjóðstjóra styrktarsjóðs hennar, við Viðskiptablaðið að Sonja hefði langt því frá verið jafn efnuð og margir Íslendingar hafi talið. Aðal verðmætin sem Sonja hefði átt við andlátið hefðu runnið aftur til fjölskyldu John L. Loeb eldri, sem var um tíma forstjóri Kauphallarinnar í New York.

Loeb hafi verið stóra ástin í lífi Sonju þó að þau hafi bæði verið gift öðrum og stofnað þrjá sjóði (e. Trusts) fyrir hana þegar hún var á sextugsaldri. Þar sem Sonja eignaðist engin börn runnu sjóðirnir hins vegar til baka til fjölskyldu Loeb við andlát hennar.

Sjá einnig: Mátu eigur Sonju á tvær milljónir dollara

Skjalasafnið The Center for Jewish History í New York í Bandaríkjunum heldur utan um skjöl Loeb-fjölskyldunnar. Þar á meðal eru bréfaskipti þeirra við Sonju og eiginmann hennar, argentínska ólympíuverðlaunahafann Alberto de Zorrilla. Í lýsingu á skjölunum eru þau m.a. flokkuð sem samskipti vegna sjóða (e. trusts.)

„Bréfaskiptin fjalla aðallega um fjármuni sem Zorrilla-hjónin höfðu undir höndum, sérstaklega eiginkonan, Sonja," segir í lýsingu skjalasafnsins á bréfaskriftunum. Viðskiptablaðið hafði samband við skjalasafnið til að fá aðgang að skjölunum en beiðninni var hafnað á þeim forsendum að enn væri verið að flokka skjölin og þau hefðu ekki verið gerð aðgengileg almenningi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .