Helmingur félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkaði í 3,4 milljarða króna viðskiptum í dag. OMXI10 hlutabréfavísitalan stóð í stað í viðskiptum dagsins og stendur nú í 3.242,58 stigum. Mest velta var með bréf Eimskips og námu viðskipti með bréfin 710 milljónum króna.
Brim hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, um 4% í 220 milljón króna viðskiptum. Næst mest hækkaði Síldarvinnslan, um 3% í tæpum 320 milljóna viðskiptum. Bankarnir á markaði hækkuðu allir. Arion banki um tæp 1,1% í 440 milljóna viðskiptum, Íslandsbanki um 1,26% í 140 milljóna viðskiptum og Kvika um rúm 1,2% í 300 milljóna viðskiptum. Gengi Icelandair hækkaði um rúm 0,9% í 370 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi félagsins stendur í 2,19 krónum á hlut.
Gengi fimm félaga lækkaði á aðalmarkaði í dag. Iceland Seafood lækkaði um rúmlega 3,1% í 17 milljóna viðskiptum, en félagið birti ársuppgjör í gær. Marel lækkaði um rúm 1,5% í 250 milljóna viðskiptum. Sjóvá lækkaði um rúm 1%, Síminn um 0,4% og Sýn um tæp 0,8%.
Á First North markaðnum hækkaði flugfélagið Play um 0,4% í 50 milljóna viðskiptum, en félagið tilkynnti í morgun um flug til Orlando í Flórída. Solid Clouds hækkaði um 7% í 800 þúsund króna viðskiptum. Sláturfélag Suðurlands hækkaði um rúm 50% í 100 þúsund króna viðskiptum.