Eftir­spurn eftir þjónustu í lúxus­eignum í London hefur dregist veru­lega saman eftir að nýjar skatta­reglur tóku gildi í Bret­landi fyrr á þessu ári, sam­kvæmt frétt Financial Times.

Sér­fræðingar í ráðningum segja að það hafi orðið viðsnúningur á vinnu­markaði fyrir heimilisþjónustu í kjölfar brott­hvarfs auðugra er­lendra skatt­greiðenda, svo­kallaðra non-doms, sem áður reiddu sig á fast starfs­lið á borð við þjónustu­fólk, bíl­stjóra og öryggis­verði.

Caroline Baker, sem rekur fyrir­tæki í um­sjón lúxus­eigna, segir að margir af þeim ríkustu hafi haldið húsum sínum í London en hætt við að hafa starfs­fólk á launa­skrá allt árið um kring.

Þess í stað sé eftir­spurnin nú eftir „lausn sem hægt er að skala upp og niður“, þar sem starfs­fólk komi aðeins þegar eig­endur eru í húsinu.

Að sögn Baker kostar full­mönnuð heimilisþjónusta í stærri eignum allt að 300 þúsund pund á ári, eða um 50 milljónir ís­lenskra króna. Nú sé hins vegar auðveldara en áður að finna hæft starfs­fólk, enda fleiri á lausu.

Debbie Salter, fram­kvæmda­stjóri Greycoat Lum­leys, einnar helstu ráðningar­stofu fyrir þjónustu­fólk, segir að sókn í föst stöðu­gildi hafi fækkað um 14% miðað við sama tíma­bil í fyrra.

Í júní voru um 300 stöður opnar hjá stofunni, saman­borið við 500 árið 2021. Hins vegar hafi tíma­bundin ráðning aukist þar sem auð­menn opni hús sín aðeins hluta ársins.

„Á efri stigunum, eins og yfir­þjónar og um­sjónar­menn heimila, eru ein­fald­lega færri störf í boði,“ segir Salter.

Brott­hvarf auðugra ein­stak­linga tengist af­námi non-dom kerfisins sem til­kynnt var af fjár­málaráðherra, Rachel Ree­ves, síðastliðið haust.

Áður gátu þeir sem sögðust eiga fasta bú­setu er­lendis forðast skatt­lagningu á er­lendar tekjur.

Eftir breytingarnar geta þeir sem verða áfram í Bret­landi átt á hættu að allur eigna­massi þeirra – þar með talið er­lendis – verði tekinn með við út­reikning erfða­fjár­skatts, sem nemur allt að 40%.

Áhrif brott­flutningsins eru misjöfn eftir greinum sem þjónusta auðfólk.

Menntunar­fyrir­tækið Enjoy Edu­cation segir að sí­fellt fleiri náms­kennarar séu ráðnir til að sinna börnum auðmanna sem flutt hafa úr landi.

Hins vegar segir Nor­land, sem út­vegar barn­fóstrur, að breytingarnar hafi ekki haft áhrif á þeirra rekstur.

Einn bjartasti punkturinn fyrir ráðningarþjónustuna eru bandarískir ríkis­borgarar.

Caroline Baker segir að fyrir ári hafi hún fengið fyrir­spurnir frá Bandaríkjamönnum fjórum sinnum á ári en nú fái hún eina slíka í hverri viku.