Eftirspurn eftir þjónustu í lúxuseignum í London hefur dregist verulega saman eftir að nýjar skattareglur tóku gildi í Bretlandi fyrr á þessu ári, samkvæmt frétt Financial Times.
Sérfræðingar í ráðningum segja að það hafi orðið viðsnúningur á vinnumarkaði fyrir heimilisþjónustu í kjölfar brotthvarfs auðugra erlendra skattgreiðenda, svokallaðra non-doms, sem áður reiddu sig á fast starfslið á borð við þjónustufólk, bílstjóra og öryggisverði.
Caroline Baker, sem rekur fyrirtæki í umsjón lúxuseigna, segir að margir af þeim ríkustu hafi haldið húsum sínum í London en hætt við að hafa starfsfólk á launaskrá allt árið um kring.
Þess í stað sé eftirspurnin nú eftir „lausn sem hægt er að skala upp og niður“, þar sem starfsfólk komi aðeins þegar eigendur eru í húsinu.
Að sögn Baker kostar fullmönnuð heimilisþjónusta í stærri eignum allt að 300 þúsund pund á ári, eða um 50 milljónir íslenskra króna. Nú sé hins vegar auðveldara en áður að finna hæft starfsfólk, enda fleiri á lausu.
Debbie Salter, framkvæmdastjóri Greycoat Lumleys, einnar helstu ráðningarstofu fyrir þjónustufólk, segir að sókn í föst stöðugildi hafi fækkað um 14% miðað við sama tímabil í fyrra.
Í júní voru um 300 stöður opnar hjá stofunni, samanborið við 500 árið 2021. Hins vegar hafi tímabundin ráðning aukist þar sem auðmenn opni hús sín aðeins hluta ársins.
„Á efri stigunum, eins og yfirþjónar og umsjónarmenn heimila, eru einfaldlega færri störf í boði,“ segir Salter.
Brotthvarf auðugra einstaklinga tengist afnámi non-dom kerfisins sem tilkynnt var af fjármálaráðherra, Rachel Reeves, síðastliðið haust.
Áður gátu þeir sem sögðust eiga fasta búsetu erlendis forðast skattlagningu á erlendar tekjur.
Eftir breytingarnar geta þeir sem verða áfram í Bretlandi átt á hættu að allur eignamassi þeirra – þar með talið erlendis – verði tekinn með við útreikning erfðafjárskatts, sem nemur allt að 40%.
Áhrif brottflutningsins eru misjöfn eftir greinum sem þjónusta auðfólk.
Menntunarfyrirtækið Enjoy Education segir að sífellt fleiri námskennarar séu ráðnir til að sinna börnum auðmanna sem flutt hafa úr landi.
Hins vegar segir Norland, sem útvegar barnfóstrur, að breytingarnar hafi ekki haft áhrif á þeirra rekstur.
Einn bjartasti punkturinn fyrir ráðningarþjónustuna eru bandarískir ríkisborgarar.
Caroline Baker segir að fyrir ári hafi hún fengið fyrirspurnir frá Bandaríkjamönnum fjórum sinnum á ári en nú fái hún eina slíka í hverri viku.