Gosrisinn Coca-Cola hefur ráðist í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir sem koma til með að fækka störfum um 2.200 á heimsvísu, þar af um 1.200 starfa í Bandaríkjunum. Í upphafi árs störfuðu um 86.000 manns hjá félaginu.
Félagið hefur hagrætt töluvert á árinu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, enda hafa lokanir veitingastaða, knæpa, kvikmyndahúsa og íþróttaleikvanga um heim allan haft veruleg áhrif á sölu gosrisans, að því er fram kemur í frétt WSJ.
Stöðugildi félagsins verða um það bil 12% færri í Bandaríkjunum eftir hagræðinguna, en starfsfólki verður ýmist sagt upp eða boðinn starfslokasamningur. Félagið bauð um fjögur þúsund starfsmönnum í Bandaríkjunum og Kanada valkvæða starfslokasamninga í ágúst síðastliðnum, en ekki hefur verið gefið upp hve margir gengu að boðinu.
Gosrisinn væntir þess að hagræðingaraðgerðirnar lækki kostnað um sem nemur 350 til 550 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar allt að 70 milljörðum íslenskra króna.
Hagnaður gosrisans á síðasta ársfjórðungi nam 1,74 milljörðum dollara á síðasta ári, sem samsvarar tæplega 222 milljörðum króna, og var hann þriðjungi lægri en á sama tíma árið áður.
Velta gosrisans nam á níunda milljarð dollara á síðasta ársfjórðungi, sem samsvarar ríflega 1.100 milljörðum króna. Veltan lækkaði um 9% frá sama tíma á fyrra ári en jókst frá fyrri ársfjórðungi, þegar veltan lækkaði um 28% milli ára.
Kóladrykkurinn Tab heyrir sögunni til
Starfsemi gosrisans vestanhafs verður endurskipulögð til samræmis við rekstrareiningar annars staðar í heiminum. Hingað til hefur enda gosvélarekstur, flösku- og dósarekstur og ávaxtasafarekstur félagsins þar vestanhafs hver um sig haft sérstök teymi um markaðsmál, samskipti við endursöluaðila og samstarf við átöppunarverksmiðjur. Eftir skipulagsbreytingarnar verða teymi þessara ólíku rekstrareininga sameinuð í eitt.
Markmið endurskipulagningarinnar er jafnframt að slípa til boðleiðir, til að einfalda ákvörðunartöku, draga úr skrifræði og þar með draga úr mönnunarþörf. Endurskipulagningin tekur ekki til átöppunar, enda eru verksmiðjurnar flestar í sjálfstæðum rekstri.
Gosrisinn vinnur jafnframt að því að fækka vörumerkjaflokkum úr 430 í 200, og einblína þannig á drykkjarvörur sem eru í vexti og geti selst í stórum stíl.
Á meðal vörumerkja sem lenda í fallöxinni og eru Íslendingum kunn, er kóladrykkurinn Tab. Íslenskir unnendur kóladrykkjarins sáu mjög á eftir drykknum þegar hann hvarf úr hillum hér á landi á sínum tíma, en nú er ljóst að hann verður einnig ófáanlegur erlendis. Tab var fyrsti sykurlausi gosdrykkurinn sem Coca-cola setti á markað, árið 1963.