Stjórn þjónustufyrirtækisins Daga ákvað á stjórnarfundi í lok október að greiða út 250 milljónir króna með lækkun hlutafjár í B-flokki.

Eigið fé félagsins nam tæplega 710 milljónum í árslok 2020 og skuldir voru um 1,7 milljarðar. Dagar skiluðu 71 milljónar króna hagnaði árið 2020, samanborið við 113 milljóna tap árið áður. Velta félagsins jókst um 2% á milli áranna 2019 og 2020 og nam tæpum 4,6 milljörðum. Ekki var greiddur arður vegna rekstrarársins 2020.

Í árslok 2020 voru stærstu hluthafar Daga bræðurnir Einar og Benedikt Sveinssynir. Einar átti 27,3% í gegnum félagið Pólaris, sem hét áður P 126, og Benedikt átti 26,2% í gegnum félagið Hafsilfur. Meðal annarra hluthafa eru Fossar ehf., fjárfestingafélag Sigurbjörns Þorkelssonar og Aðalheiðar Magnúsdóttur, með 4,1% hlut og hópur af erlendum fjárfestum.