Tekjur 460 ehf., félags í eigu Dags Sigurðssonar, landsliðsþjálfara Japans í handbolta, og eiginkonu hans, Ingibjargar Pálmadóttur, af þjálfun og fyrirlestrum erlendis námu 110 milljónum árið 2020.
Ekki liggur fyrir hvernig tekjurnar skiptast á þjálfun og fyrirlestra erlendis en Dagur er vinsæll fyrirlesari í Þýskalandi. Miðað við tekjur félagsins er Dagur þó einn tekjuhæsti ef ekki tekjuhæsti handboltaþjálfari heims. Félagið hóf starfsemi árið 2017 sama ár og Dagur tók nokkuð óvænt við sem landsliðsþjálfari Japan.
PSG og Veszprém líka á eftir Degi
Dagur gerði sjö ára samning um þjálfun við japanska landsliðsins í handbolta, fram yfir Ólympíuleikana, eða árið 2024. Hart var barist um Dag eftir að hann gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum í byrjun ársins 2016 þrátt fyrir meiðsli margra lykilmanna. Franska ofurliðið PSG og ungverska stórliðið Veszprém voru einnig sögð vilja ráða Dag sem þjálfara.
PSG var sagt tilbúið að tvöfalda laun Dags og greiða honum um 75 milljónir króna á ári. Japanir voru hins vegar að undirbúa Ólympíuleikana í Tókýó sem fara áttu fram sumarið 2020. Japönsk íþróttasambönd réðu fjölmarga erlenda þjálfara til að tryggja sem bestan árangur á leikunum. Á þeim tímapunkti hafði japanska karlaliðið í handbolta einungis komist á tvö af átta heimsmeistaramótum sem haldin höfðu verið frá aldamótum.
Fyrirlesari hjá þýskum stórfyrirtækjum
Dagur er á mála hjá þýskri umboðsskrifstofu sem fyrirlesari enda þekkt stærð þar í landi eftir að hafa náð góðum árangri með þýska landsliðið og Füchse Berlin. Hann hefur haldið fyrirlestra fyrir fjölda stórfyrirtækja á borð við McKinsey, Daimler, Telekom, E.ON og og Allianz. Sem fyrirlesari ræðir hann meðal annars hvernig byggja eigi upp liðsheild og fá það mesta út úr einstaklingum.
Tekjur 460 ehf. á árunum 2017 til 2020 námu samanlagt 388 milljónum króna og þar af námu tekjur af þjálfun og fyrirlestrum erlendis 375 milljónum króna eða um 85 til 110 milljónum á ári. Félagið hagnaðist um 47 milljónir árið 2020 og þá var launakostnaður 26 milljónir króna. Samanlagður hagnaður félagsins árin 2017 til 2020 nemur 170 milljónum króna.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:
- Úttekt á stöðu fluggeirans.
- Jarmhlutabréf og áhættufjárfestingar víkja fyrir óvissu á mörkuðum Vestanhafs.
- Farið er yfir orsakir verðbólgunnar og horfur.
- Fjallað um skattalega meðferð rafmynta.
- Ótímabært er að tala um bólu á fasteignamarkaði þrátt fyrir miklar verðhækkanir undanfarin ár.
- Ráðgjafar Intellecta ræða stafræna umbreytingu atvinnulífsins.
- Rætt er við Magneu Árnadóttur nýjan fjármálastjóra Motus.
- Týr fjallar um sóttvarnir á Bessastöðum.
- Huginn og Muninn eru á sínum stað auk fjölmiðlarýnis sem fjallar um frjálsan markað og Covid hugarfarið.