Stærstu bankar Danmerkur, Danske Bank og Nordea, eru byrjaðir að bjóða húsnæðislán á mun betri kjörum en áður en þó eingöngu fyrir efnuðustu viðskiptavini sína.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen gæti þessi þróun breytt húsnæðisfjármögnun í Danmörku til frambúðar.
Danskir bankar hafa frá 2003 haft heimild til að veita svokölluð bankalán til húsnæðiskaupa (d. bankboliglån) í stað hefðbundinna veðlána (d. realkreditlån).
Hingað til hafa þau þó að mestu verið notuð til að fjármagna þann hluta kaupverðs sem ekki fæst veðlán fyrir – þ.e. yfir 80% af fasteignaverði.
Nú vilja stærstu bankarnir breyta því. Danske Bank og Nordea hafa aukið vægi beinna bankalána til húsnæðiskaupa og bjóða þeim sem teljast góðir viðskiptavinir, fólki með háar tekjur, góðar eignir og litla áhættu betri kjör.
Samkvæmt útreikningum Børsen getur lántaki sem kaupir íbúð fyrir 5,6 milljónir danskra króna og fjármagnar 80% með bankaíbúðarláni sparað allt að 30.000 DKK á ári miðað við veðlán.
Það samsvarar allt að 12,5% lægri greiðslubyrði á mánuði fyrir tekjuhæstu viðskiptavini bankans.
Bankalán til íbúðarkaupa hafa verið að aukast til muna í Danmörku en Nordea veitti íbúðarlán fyrir 23 milljarða danskra króna í júní 2025, eftir 20% aukningu milli ára. Á sama tíma drógust veðlán þeirra saman úr 294 í 286 milljarða danskra króna.
Danske Bank jók bankalán sín um 27%, úr 46 í 58 milljarða DKK, á meðan lánasafn Realkredit Danmark (sem bankinn á) lækkaði um 13 milljarða og stendur nú í 409 milljörðum danskra króna.
„Við viljum vera banki fyrir alla íbúðarkaupendur í Danmörku, hvort sem þeir kjósa veðlán hjá Realkredit Danmark eða íbúðarlán hjá Danske Bank,“ segir Carsten Egeriis, forstjóri Danske Bank.
Nykredit, stærsti veðlánaveitandi Danmerkur, varar við þróuninni.
Forstjórinn Michael Rasmussen segir að bankaíbúðarlán henti fyrst og fremst betur settu fólki en að veðlán séu áfram „ódýrasta, gegnsæjasta og öruggasta fjármögnunin fyrir langflesta“.
„Við verðum að tryggja að komandi kynslóðir, og sérstaklega fyrstu kaupendur, hafi áfram aðgang að hagkvæmum veðlánum, óháð eignum, póstnúmeri eða launatekjum.“