Stærstu bankar Dan­merkur, Danske Bank og Nor­dea, eru byrjaðir að bjóða húsnæðislán á mun betri kjörum en áður en þó ein­göngu fyrir efnuðustu við­skipta­vini sína.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen gæti þessi þróun breytt húsnæðis­fjár­mögnun í Dan­mörku til fram­búðar.

Danskir bankar hafa frá 2003 haft heimild til að veita svo­kölluð bankalán til húsnæðis­kaupa (d. bank­boli­glån) í stað hefðbundinna veðlána (d. real­kreditlån).

Hingað til hafa þau þó að mestu verið notuð til að fjár­magna þann hluta kaup­verðs sem ekki fæst veðlán fyrir – þ.e. yfir 80% af fast­eigna­verði.

Nú vilja stærstu bankarnir breyta því. Danske Bank og Nor­dea hafa aukið vægi beinna bankalána til húsnæðis­kaupa og bjóða þeim sem teljast góðir við­skipta­vinir, fólki með háar tekjur, góðar eignir og litla áhættu betri kjör.

Sam­kvæmt út­reikningum Børsen getur lán­taki sem kaupir íbúð fyrir 5,6 milljónir danskra króna og fjár­magnar 80% með bankaíbúðar­láni sparað allt að 30.000 DKK á ári miðað við veðlán.

Það sam­svarar allt að 12,5% lægri greiðslu­byrði á mánuði fyrir tekju­hæstu við­skipta­vini bankans.

Bankalán til íbúðar­kaupa hafa verið að aukast til muna í Dan­mörku en Nor­dea veitti íbúðar­lán fyrir 23 milljarða danskra króna í júní 2025, eftir 20% aukningu milli ára. Á sama tíma drógust veðlán þeirra saman úr 294 í 286 milljarða danskra króna.

Danske Bank jók bankalán sín um 27%, úr 46 í 58 milljarða DKK, á meðan lána­safn Real­kredit Dan­mark (sem bankinn á) lækkaði um 13 milljarða og stendur nú í 409 milljörðum danskra króna.

„Við viljum vera banki fyrir alla íbúðar­kaup­endur í Dan­mörku, hvort sem þeir kjósa veðlán hjá Real­kredit Dan­mark eða íbúðar­lán hjá Danske Bank,“ segir Carsten Egeriis, for­stjóri Danske Bank.

Nykredit, stærsti veðlána­veitandi Dan­merkur, varar við þróuninni.

For­stjórinn Michael Rasmus­sen segir að bankaíbúðar­lán henti fyrst og fremst betur settu fólki en að veðlán séu áfram „ódýrasta, gegnsæjasta og öruggasta fjár­mögnunin fyrir lang­flesta“.

„Við verðum að tryggja að komandi kynslóðir, og sér­stak­lega fyrstu kaup­endur, hafi áfram að­gang að hag­kvæmum veðlánum, óháð eignum, póstnú­meri eða launa­tekjum.“