Bandarísku bílaframleiðendurnir Ford og General Motors (GM) eru að smám saman að hverfa frá metnaðarfullum rafbílaáætlunum og leggja nú aukna áherslu á stórar, bensíndrifnar bifreiðar. Sömu sögu er að segja af Dodge og Chrysler, sem nú eru í eigu Stellantis. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Þessa stefnubreytingu má rekja til ákvörðunar ríkisstjórnar Donald Trumps um að afnema ýmsar reglur er varða umhverfismál og kolefnislosun. Þetta eru reglur sem áttu að ýta undir framleiðslu rafbíla.

Reglubreytingarnar draga úr kostnaði vegna sektargreiðslna og þurfa fyrirtækin því ekki lengur að kaupa kolefniseiningar – sem sparar milljarða dollara. Frá árinu 2022 hafa Ford, GM og Stellantis greitt nærri 10 milljörðum dala í sektir og kolefniseiningar.

„Þetta er tækifæri upp á marga milljarða næstu árin,“ sagði Jim Farley, forstjóri Ford, í símtali við fjárfesta í síðustu viku. Mary Barra, forstjóri GM, tók undir þetta á nýlegum fundir með fjárfestum.

GM hafði áður lýst því yfir að stefnt væri að því að hætta með brunahreyfla fyrir árið 2035. Nú er talað um að framleiðslunni verði haldið lengur áfram.

„Við fáum nú tækifæri til að selja bíla með brunahreyflum lengur og njóta arðseminnar sem því fylgir,“ sagði Barra a fundinum.

Það er þó ekki svo að fyrirtækin séu hætt að framleiða rafbíla heldur gera þau það núna í samræmi við eftirspurn, sem hefur dalað nokkuð.

Varað hefur verið við því við að þessi stefna kunni að seinka mjög orkuskiptum í Bandaríkjunum. Á móti kemur að eftirspurn eftir meðalstórum og stórum bensínbílum er mikil í landinu og framleiðendur í Detroit eru að nýta sér tækifærið.