Fjarskiptastofa (FST) hefur nú birt bráðabirgðaákvörðun sína sem tryggir að viðskiptavinir Símans geti áfram horft á sjónvarpsefni Sýnar, þar á meðal Enska boltann, í gegnum myndlykla Símans.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir helgi mun Síminn bjóða áskrifendum sínum upp á Enska boltann í haust, eftir að Fjarskiptastofa úrskurðaði að Sýn yrði að veita aðgang að rásunum SÝN og SÝN Sport.
Sýn hefur gagnrýnt ákvörðunina harðlega og kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, auk þess sem beðið hefur verið um frestun réttaráhrifa á meðan málið er til meðferðar.
Ákvörðun Fjarskiptastofu kemur í kjölfar áforma Sýnar um að hætta að veita Símanum aðgang að efni sínu frá og með 1. ágúst 2025, sem hefði haft áhrif á tugþúsundir viðskiptavina og markaðshlutdeild keppinautanna.
Síminn óskaði eftir því að FST skyldi Sýn til að veita áfram aðgang að efni sínu um IPTV-dreifikerfi Símans og jafnframt að slíkur aðgangur yrði veittur án endurgjalds þegar um væri að ræða opin efni og á sanngjörnu heildsöluverði þegar um væri að ræða áskriftarefni eins og Enska boltann.
Fjarskiptastofa féllst að mestu á sjónarmið Símans í bráðabirgðaákvörðun og taldi sanngjarnt að efni Sýnar yrði áfram aðgengilegt í kerfi Símans, þar sem samkeppnishagsmunir, neytendavernd og jafnræði væru í húfi.
Stofnunin byggði ákvörðunina m.a. á fjölmiðlalögum og rétti til flutnings sjónvarpsútsendinga.
Í ákvörðuninni kemur fram að áskriftarásir Sýnar, þar á meðal pakkinn „Sýn+ Allt Sport“ sem inniheldur Enska boltann og kostar 8.990 kr. á mánuði í smásölu, skuli veittar með [...]% heildsöluafslætti til Símans.
Það þýðir að verðið sem Síminn greiðir fyrir aðgang að efninu er lægra en smásöluverðið, án virðisaukaskatts, á meðan hefðbundin málsmeðferð stendur yfir.
Ef lokaverð í endanlegri ákvörðun verður lægra eða hærra en þetta bráðabirgðaverð verður mismunurinn gerður upp síðar afturvirkt frá og með 1. ágúst 2025.
Sýn hefur haldið því fram að OTT-dreifing í gegnum netið (t.d. í gegnum appið Sýn+) væri fullnægjandi lausn fyrir neytendur í stað dreifingar um myndlykla símans.
FST hafnar þeirri túlkun og bendir á að stór hluti heimila, um 40.000 talsins, noti eingöngu IPTV-þjónustu í gegnum myndlykla Símans.
Þá séu OTT og IPTV að hluta samofnar og ekki hægt að líta á þær sem að fullu jafngildar að svo stöddu.
Fjarskiptastofa telur ljóst að ef efni Sýnar, einkum Enski boltinn, væri ekki í boði hjá Símanum myndi það raska samkeppni verulega. Sýn gæti þannig „nært“ sitt eigið fjarskiptakerfi með íþróttaefni sem er lykiláhorfsefni og fælt neytendur frá Símanum, sem ekki hefði aðgang að sambærilegu efni.
Sýn hafði tilkynnt að loka ætti fyrir dreifingu í gegnum kerfi Símans 1. ágúst og taldi FST brýnt að grípa tafarlaust inn í því annars væri hætta á að réttindi Símans og viðskiptavina hans færu forgörðum.
Bráðabirgðaákvörðunin gildir fram til 1. febrúar 2026.
Fjarskiptastofa mun á næstu vikum hefja efnislega meðferð málsins og leita álits bæði Fjölmiðlanefndar og Samkeppniseftirlitsins áður en endanleg ákvörðun er tekin. Heildarútkoman getur því tekið breytingum eftir því hvernig málið þróast.