Fjar­skipta­stofa (FST) hefur nú birt bráða­birgðaákvörðun sína sem tryggir að við­skipta­vinir Símans geti áfram horft á sjón­varps­efni Sýnar, þar á meðal Enska boltann, í gegnum mynd­lykla Símans.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá fyrir helgi mun Síminn bjóða áskrif­endum sínum upp á Enska boltann í haust, eftir að Fjar­skipta­stofa úr­skurðaði að Sýn yrði að veita að­gang að rásunum SÝN og SÝN Sport.

Sýn hefur gagn­rýnt ákvörðunina harð­lega og kært ákvörðunina til úr­skurðar­nefndar fjar­skipta- og póst­mála, auk þess sem beðið hefur verið um frestun réttaráhrifa á meðan málið er til með­ferðar.

Ákvörðun Fjar­skipta­stofu kemur í kjölfar áforma Sýnar um að hætta að veita Símanum að­gang að efni sínu frá og með 1. ágúst 2025, sem hefði haft áhrif á tugþúsundir við­skipta­vina og markaðs­hlut­deild keppi­nautanna.

Síminn óskaði eftir því að FST skyldi Sýn til að veita áfram að­gang að efni sínu um IPTV-dreifi­kerfi Símans og jafn­framt að slíkur að­gangur yrði veittur án endur­gjalds þegar um væri að ræða opin efni og á sann­gjörnu heildsölu­verði þegar um væri að ræða áskriftar­efni eins og Enska boltann.

Fjar­skipta­stofa féllst að mestu á sjónar­mið Símans í bráða­birgðaákvörðun og taldi sann­gjarnt að efni Sýnar yrði áfram að­gengi­legt í kerfi Símans, þar sem sam­keppnis­hags­munir, neyt­enda­vernd og jafn­ræði væru í húfi.

Stofnunin byggði ákvörðunina m.a. á fjölmiðla­lögum og rétti til flutnings sjón­varpsút­sendinga.

Í ákvörðuninni kemur fram að áskriftarásir Sýnar, þar á meðal pakkinn „Sýn+ Allt Sport“ sem inni­heldur Enska boltann og kostar 8.990 kr. á mánuði í smásölu, skuli veittar með [...]% heildsölu­afslætti til Símans.

Það þýðir að verðið sem Síminn greiðir fyrir að­gang að efninu er lægra en smásölu­verðið, án virðis­auka­skatts, á meðan hefðbundin máls­með­ferð stendur yfir.

Ef loka­verð í endan­legri ákvörðun verður lægra eða hærra en þetta bráða­birgða­verð verður mis­munurinn gerður upp síðar aftur­virkt frá og með 1. ágúst 2025.

Sýn hefur haldið því fram að OTT-dreifing í gegnum netið (t.d. í gegnum appið Sýn+) væri fullnægjandi lausn fyrir neyt­endur í stað dreifingar um mynd­lykla símans.

FST hafnar þeirri túlkun og bendir á að stór hluti heimila, um 40.000 talsins, noti ein­göngu IPTV-þjónustu í gegnum mynd­lykla Símans.

Þá séu OTT og IPTV að hluta sam­ofnar og ekki hægt að líta á þær sem að fullu jafn­gildar að svo stöddu.

Fjar­skipta­stofa telur ljóst að ef efni Sýnar, einkum Enski boltinn, væri ekki í boði hjá Símanum myndi það raska sam­keppni veru­lega. Sýn gæti þannig „nært“ sitt eigið fjar­skipta­kerfi með íþrótta­efni sem er lykiláhorfs­efni og fælt neyt­endur frá Símanum, sem ekki hefði að­gang að sam­bæri­legu efni.

Sýn hafði til­kynnt að loka ætti fyrir dreifingu í gegnum kerfi Símans 1. ágúst og taldi FST brýnt að grípa tafar­laust inn í því annars væri hætta á að réttindi Símans og við­skipta­vina hans færu for­görðum.

Bráða­birgðaákvörðunin gildir fram til 1. febrúar 2026.

Fjar­skipta­stofa mun á næstu vikum hefja efnis­lega með­ferð málsins og leita álits bæði Fjölmiðla­nefndar og Sam­keppnis­eftir­litsins áður en endan­leg ákvörðun er tekin. Heildarút­koman getur því tekið breytingum eftir því hvernig málið þróast.