Nova birti í dag upp­gjör fyrir annan árs­fjórðung 2025 gær en sam­kvæmt greiningu greiningar­fyrir­tækisins Akkur var það í heild sterkt og í samræmi við væntingar.

Tekjur og EBITDA komu bæði um­fram spár en EBIT og hagnaður voru undir væntingum vegna hærri af­skrifta og fjár­magns­gjalda.

Heildar­tekjur Nova á fjórðungnum námu 3.428 milljónum, sem er 52 milljónum um­fram spá Akkur.

Mikill drif­kraftur kom frá Fast­Net-þjónustu, sem skilaði 11,5% tekju­vexti milli ára á fjórðungnum og 10,7% vexti fyrstu sex mánuði ársins. Þetta er um­fram ársáætlun Akkur, sem gerði ráð fyrir 8,5% vexti.

EBITDA nam 1.054 milljónum, eða 58 milljónum um­fram spá, og hlut­fall EBITDA af tekjum var 30,7%.

Hærri tekjur og lægra kostnaðar­verð seldra vara skýra þessa framúr­skarandi niður­stöðu. EBITDA síðustu 12 mánaða hefur nú farið yfir 4,3 milljarða og Akkur telur lík­legt að ár­sniður­staðan verði yfir efri mörkum áætlunar félagsins (4,0–4,4 ma.kr.).

EBIT lækkaði niður í 447 milljónir króna, eða 10 milljónum króna undir spá, og hagnaður eftir skatta nam 149 milljónum króna, sem er 38 milljónum króna undir væntingum.

Hærri af­skriftir (608 milljónir króna á móti 539 milljónum króna í spá) og fjár­magns­gjöld (255 milljónir króna á móti 223 milljónum króna í spá) voru helstu ástæður þessa fráviks. Akkur telur þó ekki að fjár­magns­gjöldin kalli á endur­skoðun ársáætlunar að svo stöddu, en af­skrifta­spá gæti þurft að hækka.

Frjálst sjóð­streymi var 865 milljónir króna á fjórðungnum, sem er veru­leg aukning frá sama tíma í fyrra (297 milljónir króna á þriðja árs­fjórðungi 2023).

Bati í rekstri, lægri veltu­fjár­binding og minni fjár­festingar skýra þróunina. Lækkun veltu­fjár­bindingar tengist þó að hluta til ein­skiptis at­burðum.

Akkur metur að EBITDA fyrir árið í heild verði um­fram áætlanir, á meðan EBIT og hagnaður verða lík­lega undir væntingum.

Heildaráhrif á verðmat eru talin smávægi­leg. Miðað við dagsloka­gengi í dag nemur markaðsvirði Nova 17.000 milljónum króna, heildar­virði rúm­lega 28.000 milljónum króna, og hlut­föllin EV/EBITDA 6,6, EV/EBIT 13,4 og P/E 15,9.