Elín Pálmadóttir hefur tekið við hlutverki sviðsstjóra Bókhalds og launa hjá PwC. Þetta kemur fram í tilkynningu. Bókhald og laun er svið hjá PwC sem aðstoðar fyrirtæki og rekstraraðila með bókhald, laun, ársreikninga og framtalsskil.
Elín er 33 ára gömul og hóf störf hjá PwC árið 2015 og hefur síðan þá unnið á endurskoðunarsviði PwC. Hún hefur leitt stór endurskoðunar- og reikningsskilaverkefni innan PwC undanfarin ár og verið í hópi helstu sérfræðinga hjá félaginu á sviði reikningsskila, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Hún starfaði á endurskoðunarstofunni Gæðaendurskoðun hf. á árunum 2008 til 2011 og síðar á bókhaldsstofunni Bókhald og kennsla ehf. samhliða námi. Elín hefur setið sem varamaður í prófnefnd og sem fulltrúi í aga-, laga- og samskiptanefnd viðurkenndra bókara undanfarin ár. Hún stundaði fótbolta frá unga aldri og fór meðal annars í nám til Bandaríkjanna á fótboltastyrk.