Lyfja­fyrir­tækið Novo Nor­disk, sem á síðustu árum hefur orðið burðarás í dönsku efna­hags­lífi, hefur lækkað tekju- og af­komu­spá sína í ár.

Það hefur leitt til þess að bankar hafa lækkað hag­vaxtar­horfur fyrir Dan­mörku og ýtt af stað um­ræðu um hvort landið gæti staðið frammi fyrir svipuðum áhrifum og þegar Nokia hrundi í Finn­landi fyrir rúmum tveimur ára­tugum.

Novo Nor­disk er í dag lík­lega enn mikilvægara fyrir danska efna­hags­lífið en Nokia var fyrir það finnska þegar mest lét, sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen.

Nýjustu tölur benda til þess að starf­semi fyrir­tækisins gæti numið að minnsta kosti 5% af lands­fram­leiðslu Dan­merkur.

Til saman­burðar stóð Nokia fyrir um 2,6% af lands­fram­leiðslu Finn­lands rétt áður en fallið hófst 2008.

Lyfja­iðnaðurinn sem Novo ræður ríkjum í var á síðasta ári ábyrgur fyrir yfir 9% af vergum virðis­auka landsins og um 1,2% allra starfa.

Nykredit hefur lækkað hag­vaxtar­spá sína fyrir 2025 úr 3% í undir 1% og sér fram á minni vöxt einnig á næsta ári.

Áhrif Novo eitt og sér dregur hag­vöxt niður um 0,1 pró­sentu­stig.

Danske Bank býst nú við um 1,5–2% hag­vexti á þessu ári, miðað við fyrri spá um 3,2%.

Á undan­förnum tveimur árum hefur lyfja­iðnaðurinn bætt meira en 2 pró­sentu­stigum við hag­vöxt á ári.

Án þessa fram­lags hefði hag­vöxtur verið neikvæður bæði 2022 og 2023, sem skýrir að hluta hvers vegna Dan­mörk hefur staðið sig mun betur en flest önnur Evrópulönd.

Børsen tekur þó fram að þótt saman­burðurinn við Nokia sé á margan hátt freistandi bendi sér­fræðingar á að staðan sé ólík.

Þegar Nokia hrundi var finnska hag­kerfið þegar veikt og annar lykiliðnaður, pappírs­fram­leiðsla, var líka í kreppu.

Þá var launa­skrið og sam­keppnis­hæfni at­vinnulífsins rýrnuð, sem gerði öðrum greinum erfitt að taka við fallinu.

Í Dan­mörku er at­vinnu­markaðurinn sterkur, launaþróun í iðnaði hóf­stillt og aðrir geirar hafa svigrúm til að taka við starfs­fólki Novo ef til niður­skurðar kemur.

Novo hefur auk þess minna net inn­lendra undir­verk­taka en Nokia hafði, þó að fyrir­tækið sé stór kaupandi í bygginga­geiranum og gæti dregið úr fjár­festingum þar.

Novo Nor­disk er langstærsti greiðandi fyrir­tækja­skatta í Dan­mörku.

Árið 2023 nam skatt­greiðsla þess 15 milljörðum danskra króna, eða 15% af heildarinn­heimtu fyrir­tækja­skatts.

Til saman­burðar var hlut­deild Nokia í finnska fyrir­tækja­skattinum um 9% árið 2008.

Þó að lægri hag­vöxtur dragi úr aukningu skatt­tekna er ekkert sem bendir til þess að greiðslur Novo minnki í bráð.

Þrátt fyrir að markaðsvirði Novo hafi lækkað um 65% á síðasta ári og að vöxtur fyrir­tækisins sé minni en áður var spáð er fyrir­tækið enn í vexti.

Sér­fræðingar á borð við Pal­le Søren­sen hjá Nykredit vara við of­viðbrögðum:

„Við erum að tala um hægari vöxt, ekki sam­drátt,“ segir hann.

Sagan af Nokia sýnir að stór­fyrir­tæki geta haft gríðar­leg áhrif á lítil hag­kerfi, bæði til góðs og ills.

Í dag lifir finnska hag­kerfið enn á þeirri þekkingu sem Nokia byggði upp á sínum tíma.

Sér­fræðingar telja að sama kunni að gilda um Novo Nor­disk, jafn­vel þótt fyrir­tækið standi frammi fyrir meiri mót­vindi en áður.