Nýr kafli í tollasögu Donalds Trump Bandaríkjaforseta er hafinn. Fyrir helgi tilkynnti hann um tolla gagnvart helstu viðskiptaríkjunum.
Þeir allra svartsýnustu spáðu því að bandaríska hagkerfið myndi hrynja vegna tollastríðsins. Verðbólgan myndi aukast gríðarlega og vöruskortur yrði í verslunum. Þetta hefur ekki raungerst þó verðbólga hafi vissulega aukist vestra.
Nýjar verðbólgutölur birtust á þriðjudaginn en verðbólga mældist 2,7%, óbreytt frá fyrri mánuði, og var rétt undir spám hagfræðinga. Kjarnaverðbólga var hins vegar yfir spám og mældist 3,1%.
Þessi þróun vekur óneitanlega upp ýmsar spurningar. Er efnahagsstefna Trump að virka? Er „markaðurinn“ hættur að taka mark á efnahagsstefnunni og ófyrirsjáanleikanum? Eiga áhrif tollastefnunnar ef til vill enn eftir að koma fram?
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir að þó tilkynningin um tollana hafi verið ákveðið lost fyrir markaði í apríl, þá hafa þeir ekki mælanleg áhrif samdægurs.
„Ég held að við séum einfaldlega að horfa upp á áhrifin koma fram í rauntíma með töf,“ segir hann.
„Gagnkvæmir tollar umfram 10% lágmarkstoll eru t.d. fyrst að taka gildi nú í ágúst. Margir innflytjendur sitja síðan á birgðum sem voru fluttar inn áður en tollarnir tóku gildi, auk þess sem það eru vísbendingar um að fyrirtæki hafi verið treg til að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag ef ske kynni að tollarnir reyndust tímabundnir. Allt saman tefur þetta áhrifin.“

Að sögn Hafsteins hafa fyrstu merkin um áhrif tollanna sést á allra síðustu vikum.
„Verðlag vöruflokka sem eru næmastir fyrir tollunum er farið að hækka, sérstaklega verð vara með stuttan hillutíma á borð við innflutta ávexti. Hagvöxtur hægði verulega á sér í Bandaríkjunum og nam rétt rúmlega 1% á fyrri helmingi ársins, samanborið við tæp 3% á seinni helmingi síðasta árs.
Þótt tæknirisarnir standi vel, þá hafa uppgjör smásölu- og framleiðslufyrirtækja á öðrum ársfjórðungi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir, og það eru vísbendingar um að tollarnir séu farnir að koma niður á framlegð þeirra. Svo benda endurskoðaðar tölur um starfafjölgun til þess að vinnumarkaður í Bandaríkjunum hafi hægt mun meira á en áður var talið, enda halda fyrirtæki að sér höndum við ráðningar þegar óvissa eykst.
Ég á ekki von á því að bandaríska hagkerfið fari fram af hengiflugi, enda eru undirstöðurnar þar að ýmsu leyti traustar, en ég held að við munum sjá vaxandi merki um að tollarnir séu dragbítur á efnahagsumsvifum og hagsæld á næstu mánuðum.“
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Þar er rætt nánar við Hafstein um áhrif tollastefnu Trumps.