Bandarísk flug­félög hafa verið í miklum mót­vindi, þar sem sam­dráttur í innan­lands­flugi, efna­hags­leg óvissa og vaxandi verðnæmi neyt­enda hafa gert reksturinn þungan, sam­kvæmt The Wall Street Journal.

Stærstu flug­félög landsins, þar á meðal Sout­hwest, American Air­lines og Jet­Blu­e, hafa neyðst til að lækka far­gjöld og draga úr flug­ferðum til að mæta rýrari eftir­spurn.

Risarnir á markaði, Delta og United, hafa þó náð að skila hagnaði í þessu ár­ferði.Sout­hwest Air­lines greindi frá því í vikunni að áætlaður hagnaður fyrir af­skriftir og skatta (EBIT) hefði minnkað um 1 milljarð dollara á árinu.

American Air­lines spáir tapi á þriðja árs­fjórðungi, þar sem neyt­endur drógu úr sumar­ferðum vegna óvissu í efna­hags­lífinu.

„Innan­lands­netið hefur verið undir pressu vegna óvissu í efna­hags­lífinu og tregðu farþega til að ferðast,“ sagði Robert Isom, for­stjóri American Air­lines, í af­komu­kynningu.

Flug­félögin fóru inn í árið 2025 full af bjartsýni er vonir stóðu til að ferðaþorsti Bandaríkja­manna eftir heims­far­aldur héldi áfram, við­skipta­ferðir héldu áfram að aukast og neyt­endur myndu horfa fram hjá hærri far­gjöldum.

Efna­hags­leg óvissa tengd nýjum tollum stjórn­valda í vor breytti þó markaðinum tölu­vert.

Efnameiri að fljúga meira

Þrátt fyrir erfið­leikana hafa Delta og United náð að halda uppi arð­semi, ekki síst vegna yfir­burða á alþjóðamörkuðum og vegna áherslu á hærra verðlagða þjónustu.

„Farþegar með heimilis­tekjur yfir 100 þúsund dollara hafa haldið áfram að ferðast og kaupa dýrari sæti,“ sagði Ed Bastian, for­stjóri Delta.

American og Alaska Air greindu einnig frá aukinni sölu á dýrari sætum frá tekju­hærri við­skipta­vinum.

Sout­hwest, sem hefur hingað til verið þekkt fyrir einn þjónustu­flokk, er nú að aðlaga sig að markaði sem sækist eftir aukinni þjónustu.

Flug­félagið mun á næsta ári hefja sölu á sætum með auknu fótarými og val­frjálsri sæta­skipan í fyrsta sinn í sögu félagsins. Þar að auki hefur ný­lega inn­leidd gjald­taka fyrir far­angur skilað meiri tekjum en vonir stóðu til að sögn for­stjórans, Bob Jordan.

Jet­Blu­e greindi frá því í bréfi til starfs­manna fyrir skömmu að vonir flug­félagsins um að enda árið á núlli væru að fjara út.

„Við vonum að bókanir taki við sér en jafn­vel bati nægir ekki til að bæta upp það tap sem orðið hefur á árinu,“ skrifaði Joanna Gerag­hty, for­stjóri félagsins.