Bandarísk flugfélög hafa verið í miklum mótvindi, þar sem samdráttur í innanlandsflugi, efnahagsleg óvissa og vaxandi verðnæmi neytenda hafa gert reksturinn þungan, samkvæmt The Wall Street Journal.
Stærstu flugfélög landsins, þar á meðal Southwest, American Airlines og JetBlue, hafa neyðst til að lækka fargjöld og draga úr flugferðum til að mæta rýrari eftirspurn.
Risarnir á markaði, Delta og United, hafa þó náð að skila hagnaði í þessu árferði.Southwest Airlines greindi frá því í vikunni að áætlaður hagnaður fyrir afskriftir og skatta (EBIT) hefði minnkað um 1 milljarð dollara á árinu.
American Airlines spáir tapi á þriðja ársfjórðungi, þar sem neytendur drógu úr sumarferðum vegna óvissu í efnahagslífinu.
„Innanlandsnetið hefur verið undir pressu vegna óvissu í efnahagslífinu og tregðu farþega til að ferðast,“ sagði Robert Isom, forstjóri American Airlines, í afkomukynningu.
Flugfélögin fóru inn í árið 2025 full af bjartsýni er vonir stóðu til að ferðaþorsti Bandaríkjamanna eftir heimsfaraldur héldi áfram, viðskiptaferðir héldu áfram að aukast og neytendur myndu horfa fram hjá hærri fargjöldum.
Efnahagsleg óvissa tengd nýjum tollum stjórnvalda í vor breytti þó markaðinum töluvert.
Efnameiri að fljúga meira
Þrátt fyrir erfiðleikana hafa Delta og United náð að halda uppi arðsemi, ekki síst vegna yfirburða á alþjóðamörkuðum og vegna áherslu á hærra verðlagða þjónustu.
„Farþegar með heimilistekjur yfir 100 þúsund dollara hafa haldið áfram að ferðast og kaupa dýrari sæti,“ sagði Ed Bastian, forstjóri Delta.
American og Alaska Air greindu einnig frá aukinni sölu á dýrari sætum frá tekjuhærri viðskiptavinum.
Southwest, sem hefur hingað til verið þekkt fyrir einn þjónustuflokk, er nú að aðlaga sig að markaði sem sækist eftir aukinni þjónustu.
Flugfélagið mun á næsta ári hefja sölu á sætum með auknu fótarými og valfrjálsri sætaskipan í fyrsta sinn í sögu félagsins. Þar að auki hefur nýlega innleidd gjaldtaka fyrir farangur skilað meiri tekjum en vonir stóðu til að sögn forstjórans, Bob Jordan.
JetBlue greindi frá því í bréfi til starfsmanna fyrir skömmu að vonir flugfélagsins um að enda árið á núlli væru að fjara út.
„Við vonum að bókanir taki við sér en jafnvel bati nægir ekki til að bæta upp það tap sem orðið hefur á árinu,“ skrifaði Joanna Geraghty, forstjóri félagsins.