Evrópskir hlutabréfamarkaðir opnuðu rauðir í morgun. Margir fjárfestar sækja nú í auknum mæli í öruggari eignir vegna spennu á Krímskaganum. Íslenska úrvalsvísitalan hefur lækkað um meira en 2% í fyrstu viðskiptum dagsins en átján af tuttugu félögum aðalmarkaðarins eru rauð.

Evrópska Stoxx Europe 600 og breska FTSE 100 vísitölurnar hafa fallið um meira en 2% í morgun. Þá hefur þýska Dax 30 og franska Cac 40 fallið um rúmlega 3%.

Lækkun á hlutabréfamörkuðum í morgun kemur í kjölfar ummæla Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, í gær um að Rússar gæti ráðist inn í Úkraínu á næstu dögum. Þá hafa vestræn ríki verið að kalla til baka embættisfólk frá Úkraínu og flugfélög hafa aflýst flugum til landisns.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hittir Vladímír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu á morgun og mun þar kalla eftir því að Pútín dragi úr spennu á landamærum Úkraínu.

Í umfjöllun Financial Times um segir að markaðir hafi á síðustu vikum hrist málið af sér að mestu leyti. Hins vegar hafi viðvaranir bandarískra stjónvalda leitt til að fjárfestar á Wall Street byrjuðu að selja hlutabréf í lok síðustu viku sem virðist hafa náð til Evrópu í byrjun þessarar viku.

„Nú þegar líkurnar á innrás Rússa í Úkraínu eykst, þá eykst einnig hættan á bandarískum refsiaðgerðum. Þær myndu hafa meiri afleiðingar en áður og gætt skaðað fyrirtæki um allan heim, ekki bara í Rússland,“ hefur FT eftir greinanda hjá Gavekal Research.

Greiningaraðilar hjá Rabobank telja að refsiaðgerðir á hendur Rússum gætu haft veruleg áhrif á orkuverð, matarverð og verð á lykilmálmum.