Ljóst er að stjórn Eikar mun taka nokkrum breytingum í kjölfar næsta aðalfundar fasteignafélagsins. Eik tilkynnti í morgun að Eyjólfur Árni Rafnsson og Kristín Friðgeirsdóttir hyggist ekki bjóða sig fram í stjórn félagsins að nýju.
Í tilkynningu Eikar minnir tilnefningarnefnd félagsins á að hún ráðgerir að fjalla aðeins um tillögur hluthafa og framboð til stjórnar sem berast fyrir lok næsta föstudags, 4. febrúar 2022.
Eyjólfur Árni Rafnsson hefur setið í stjórn Eikar frá árinu 2015. Samhliða stjórnarstörfum sínum hjá Eik hefur hann gengt stjórnarformennsku hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) frá árinu 2017 og Rubix Ísland frá 2016. Áður var hann forstjóri Mannvits á árunum 2008-2015.
Kristín Friðgeirsdóttir, sem starfar sem í dag sem fjármálastjóri Sýnar, tók sæti í stjórn Eikar vorið 2021. Áður en hún hóf störf hjá Sýn starfaði Kristín sem alþjóðlegur ráðgjafi í tekjustýringu, gagnagreiningu og stefnumarkandi ákvarðanatöku. Hún hefur jafnframt kennt MBA og stjórnendanámskeið í London Business School. Kristín hefur setið í stjórnum Kviku banka, Eikar, Controlant, Distica og Völku og var áður varaformaður TM og stjórnarformaður Haga.
Sitjandi stjórn Eikar:
- Eyjólfur Árni Rafnsson, stjórnarformaður
- Guðrún Bergsteinsdóttir, varaformaður stjórnar
- Hersir Sigurgeirsson
- Kristín Friðgeirsdóttir
- Ragnheiður Harðar Harðardóttir