Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, mun ekki sækjast eftir endurkjöri. Eyþór tilkynnti þetta í færslu á Facebook nú rétt upp úr miðnætti.
Eyþór hefur leitt flokkinn frá því í síðustu borgarstjórnarkosningum fyrir fjórum árum síðan, en Hildur Björnsdóttir – sem skipað hefur annað sætið – tilkynnti á dögunum að hún hygðist skora Eyþór á hólm. Hann hefur nú dregið framboð sitt til baka, að sögn af persónulegum ástæðum.
Í færslunni segir Eyþór ákvörðunina algerlega óháða því hverjir gefi kost á sér, og hvaða fyrirkomulag verði notast við við val á framboðslista, en stjórn fulltrúaráðs Varðar hafði lagt til að haldið yrði leiðtogaprófkjör líkt og fyrir fjórum árum.
Hann segist einfaldlega hafa „komist að þeirri niðurstöðu að ég þurfi og vilji meiri tíma til að sinna mér og mínu, heimili og hugðarefnum“.