Vaxtakjör á breytanlegum skuldabréfum sem Play áformar að gefa út eru með þeim hærri sem sést hafa í sambærilegum útgáfum í flugiðnaðinum á síðustu árum, samkvæmt sérfræðingi í flugiðnaðinum.
Play tilkynnti fyrir mánuði síðan um að félagið hafi tryggt sér áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna eða um 20 milljónir dala. Breytanlegu skuldabréfin munu bera 17,5% fasta vexti og er gjalddagi 24 mánuðum eftir útgáfudag.
Engar vaxtagreiðslur fara fram fyrstu 12 mánuði lánstímans, en áfallnir og ógreiddir vextir bætast við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þar á eftir greiðast vextir mánaðarlega sem nema helmingi áfallna vaxta vegna hvers mánaðar.
Stjórn Play segir í greinargerð með tillögum fyrir hluthafafund á föstudaginn að fjármögnunin sé nauðsynleg til þess að styrkja rekstur félagsins í ljósi neikvæðrar rekstrarniðurstöðu síðustu missera. Þá verður fjármagni varið í tilfallandi kostnað sem fylgir umbreytingu á rekstrarmódeli félagsins.
Stjórn Play sagði að meðal áskrifenda væru núverandi hluthafar félagsins og nýir fjárfestar. Innherji greindi frá því að sérhæfði lánasjóðurinn MF3, í rekstri Ísafoldar Capital Partners, væri stærsti þátttakandinn í skuldabréfaútgáfunni.
Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði, segir í færslu á Linkedin að honum þyki vaxtakjörin afar há sem endurspegli undirliggjandi áhættu í rekstri flugfélagsins.
„Ég man bara eftir einu öðru flugfélagi, airBaltic, sem hefur gefið út skuldabréf með svona háa árlega vexti (14,5%), sem voru þeir hæstu sem höfðu nokkru sinni sést á skuldabréfum útgefnum í evrum (e. euro-dominated benchmark bond). Nú hefur Play toppað það!“ skrifar Hans.
Hann segir ljóst að áform Play um reka „low-cost long-haul“ (LCLH) flugfélag á Íslandi hafi ekki gengið upp. Bæði Play og Norse í Noregi hafi upplifað hversu krefjandi það sé að eiga í samkeppni við stóru félögin á markaðnum milli Norður-Ameríku og Evrópu.
„Umtalsvert „sokkið fjármagn“ er raunveruleikinn og LCLH nýliðarnir hafa að mínu mati ekki hrist mikið upp í markaðnum yfir Norður-Atlantshafið,“ skrifar Hans.
Það sem bæði þessi félög hafi horft til á sínum hafi verið að tryggja sér hentugar flugvélar í gegnum leigusamninga á góðum kjörum í miðjum Covid-faraldri.
„Þetta dugir augljóslega ekki til eitt og sér. Umtalsvert fjármagn og smá heppni á markaðnum eru ómissandi þættir til að ná árangri sem nýtt flugfélag, sérstaklega í langflugum. Til að gera langa sögu stutta, þá varð Play að hætta flugi yfir Norður-Atlantshafið,“ segir Hans og bendir á að Play muni hætta flugum til og frá Norður-Ameríku frá og með 1. október.
Norse hafi sömuleiðis dregið úr umfangi flugferða til Norður-Ameríku. Bæði flugfélög hafi endurskoðað viðskiptaáætlanir sínar og breyst úr því að vera hefðbundin farþegaflugfélög að mestu leyti yfir í að leggja ríka áherslu á svokallaðan ACMI-rekstur.
Hans nefnir einnig að hálfsársuppgjör Play hafi verið undir væntingum, m.a. vegna tekjusamdráttar, neikvæðra áhrifa af styrkingu krónunnar og öðrum óvæntum þáttum. Meira að segja eldsneytisvarnir hafi haft neikvæð áhrif á afkomu Play í ár.
Hans veltir fyrir sér hvort Play muni endurskoða eldsneytisvarnir félagsins samhliða öðrum breytingum á viðskiptalíkaninu sem fela m.a. í sér að 6 af 10 þotum félagsins fara í ACMI-verkefni. Dýrt sé að vera með slíkar varnir.
