Fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn Joe Biden hefur selt útgáfurétt að væntanlegri ævisögu sinni til Hachette Book Group fyrir ríflega 10 milljónir dala, eða sem nemur 1,2 milljörðum króna, samkvæmt heimildum The Wall Street Journal.
Biden, sem er 82 ára gamall, sagði á viðburði fyrr í þessum mánuði að hann væri að vinna af fullum krafti í að skrifa ævisögu. Hann gaf til kynna að hann muni einblína á fjögurra ára forsetatíð sína.
Algengt er að Bandaríkjaforsetar og makar þeirra gefi út ævisögur eftir að þeir hafa yfirgefið Hvíta húsið. Ævisögur geta skilað þeim talsverðum tekjum og hjálpað fyrrverandi forsetum að stuðla að bættri ímynd.
Penguin Random House eignaðist útgáfurétt að ævisögu eftir fyrrverandi forsetann Barack Obama og eiginkonu hans Michelle Obama árið 2017. Á þeim tíma greindu fjölmiðlar frá því að kaupverðið hafi verið í kringum 60 milljónir dala, eða yfir 7 milljarðar króna.
Alfred A. Knopf, sem er í eigu Bertelsmann líkt og Penguin Random House, greiddi 15 milljónir dala, eða sem nemur 1,8 milljörðum króna á núverandi gengi, fyrir ævisögu Bill Clinton My Life sem kom út árið 2004.