Allt bendir til þess að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafi ekki selt jafnháar fjárhæðir af gjaldeyri framvirkt og áður vegna þess að spár gerðu ekki ráð fyrir jafn öflugu ferðaþjónustusumri og er að raungerast.
Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands og Isavia stefnir í mun fleiri ferðamenn hérlendis í sumar en spár gerðu ráð fyrir og þar sem framvirk stöðutaka með krónunni er minni verða gjaldeyrisáhrifin meiri en ella. Gistinóttum á hótelum hér á landi fjölgaði um 9,4% í júní samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Alls voru skráðar tæplega 534.000 gistinætur á hótelum í mánuðinum, samanborið við rúmlega 488.000 í júní í fyrra. Fjölgunin náði til allra landshluta en mest var hún á Vesturlandi og Vestfjörðum (30,5%), Austurlandi (21,5%), Suðurnesjum (11,3%) og Suðurlandi (9,9%). Á Norðurlandi var aukningin 6,3% og á höfuðborgarsvæðinu 5,8%.
Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um tæp 14.000 og um 32.000 í öðrum landshlutum samanlagt. Erlendir ferðamenn stóðu undir 91% allra gistinátta á hótelum í júní, eða rúmlega 488.000, sem er 12,4% aukning frá fyrra ári. Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 234 þúsund í júní samkvæmt mælingum Ferðamálastofu, 10,1% fleiri en í júní 2024. Um tvær af hverjum fimm brottförum má rekja til Bandaríkjamanna.
Á sama tíma hefur dregið úr framvirkri stöðutöku með krónunni. Viðskiptavinir bankanna, t.d. ferðaþjónustufyrirtæki, hafa ekki selt jafnháar fjárhæðir af gjaldeyri framvirkt og áður. Í lok maí var staðan um 102 milljarðar en á sama tímabili í fyrra var um að ræða 175 milljarða.
Þó að þetta þýði að fjárfestar búist ekki við frekari hækkun á gengi krónunnar mun þetta líklegast valda því að innflæði gjaldeyris í júlí og ágúst mun hafa meiri áhrif á krónuna en ef það væri búið að selja meiri gjaldeyri framvirkt.
Framvirk staða viðskiptavina bankanna hafi haft töluverð áhrif á væntingar til gjaldeyrisflæðis til sumarsins.
Á síðustu árum hefur staðan alltaf verið þannig að framvirk gjaldeyrisstaða bankanna er jákvæð. Staðan sveiflast upp og niður eftir því hvað viðskiptavinir bankanna selja mikið af væntu gjaldeyrisinnflæði framvirkt.
Bæði aðilar sem eru að verja gjaldeyrisáhættu og líka einhverjir spákaupmenn í stöðutöku. Sú litla framvirka staða sem er í bönkunum núna þýðir að innflæði yfir háönnina hefur trúlega meiri áhrif á krónuna heldur en áður.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir ljóst að minni framvirk staða viðskiptavina bankanna auki þrýsting á krónuna í sumar. „Það virðist vera að ganga eftir að það sé aukinn þrýstingur á styrkingu krónunnar. Seðlabankinn hefur jafnt og þétt verið að kaupa gjaldeyri og þeir tvöfölduðu kaupin í júní. Engu að síður hefur þrýstingurinn legið í þessa átt,“ segir Jón Bjarki.
„Ég held það sé í takt við að tekjurnar af ferðamönnum séu nokkuð myndarlegar og trúlega betur en á horfðist eftir lakan fyrsta ársfjórðung. Þannig að þessi þróun virðist vera að ganga eftir,“ bætir Jón Bjarki við. Hann segir að allt bendi til þess að þessar aðstæður verði uppi út þennan mánuð og inn í haustið.
„Nema annað vegi á móti en þetta er að spilast eins og maður bjóst við. Ágúst er síðan stór ferðamannamánuður og september er að eflast líka.“
Hvað varðar framvirka stöðu bankanna segir Jón Bjarki líklegt að það sé að hluta til vegna þess að ferðaþjónustufyrirtæki og aðrir útflytjendur hafi ekki selt jafnháar fjárhæðir af framvirkum gjaldeyri og áður.
„Það er örugglega meginparturinn af því. Ferðaþjónustan hefur verið minna að selja framvirkt og síður átt von á því að þessi meðbyr með krónunni myndi halda áfram af því þetta kemur á sama tíma og lífeyrissjóðirnir eru að kaupa minna. Það leggst líka á þetta. Seðlabankinn er því svolítið tekinn við af lífeyrissjóðunum sem þessi rreglulegi kaupandi að erlendum gjaldeyri.“