Fjárfestingarisinn Blackstone hefur fengið samþykkt kauptilboð í Crown Resorts, ástralskt félag sem rekur m.a. spilavíti, hótel og veitingastaði undir sama þaki í Melbourne, Perth og Sydney. Stjórn Crown hefur samþykkt tilboð Blackstone sem hljóðar upp á 6,3 milljarða Bandaríkjadali. BBC greinir frá.
Stærsti hluthafi Crown er ástralski milljarðamæringurinn James Packer, með 37% hlut, en hann er 956. ríkasti maður heims samkvæmt milljarðamæringa lista Forbes tímaritsins. Alls eru auðæfi hans metin á 3,6 milljarða dala. Gefst honum nú tækifæri til að segja skilið við reksturinn, en hneykslismál hafa skekið félagið og það lent undir smásjá yfirvalda.
Crown lenti undir smásjá þeirra vegna gruns um að félagið hafi vísvitandi átt í viðskiptasambandi við glæpahópa og reynt að hylma yfir það með því að afvegaleiða yfirvöld við rannsókn málsins. Sökum þessa var starfsleyfi spilavítis Crown í Sydney fellt úr gildi fyrir rúmlega einu ári. Auk þess hefur spilavítinu í Melbourne verið gert að sæta eftirliti sérstaks eftirlitsmanns á vegum ástralska ríkisins til tveggja ára.
Tæpt ár er síðan Blackstone lagði fyrst fram tilboð í Crown, en því tilboði var hafnað. Ziggy Switowski, stjórnarformaður Crown, segir tilboðið sem samþykkt hefur verið ríflega 10% hærra en fyrsta tilboðið. Hann kveðst jafnframt trúa því að viðskiptin séu álitleg niðustaða fyrir hluthafa.
Fyrrnefndur Packer sat sem stærsti hluthafi lengi vel í stjórn félagsins en sagði sig úr stjórninni árið 2018 vegna geðrænna vandamála.