Heildarfjöldi farþega í innanlands- og millilandaflugi Icelandair í janúar síðastliðnum var um 113.000, um fimmfalt fleiri en í fyrra, þegar um 23.000 flugu með félaginu. Því fjölgaði farþegum Icelandair umtalsvert á milli ára í janúar, þrátt fyrir að áhrifa ómíkron afbrigðisins gæti enn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir janúarmánuð sem Icelandair birti í Kauphöll í gærkvöldi.
Fjöldi farþega í millilandaflugi um 100.000. Stundvísi í millilandaflugi var 75% og sætanýting var 60%, samanborið við 39% í janúar 2021. Farþegar í innanlandsflugi voru um 13.000 samanborið við 11.500 í janúar 2021. Sætanýting í innanlandsflugi var 73% en hún var 60% í janúar í fyrra. Farþegar til Íslands voru 40.000 og frá Íslandi flugu 23.000, en tengifarþegar voru um 37.000.
Þrátt fyrir neikvæð áhrif af völdum ómíkron afbrigðisins var heildarframboð í janúar um 53% af framboði ársins 2019. Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi minnkaði um 15% samanborið við janúar 2021. Fraktflutningar jukust um 1% á milli ára í janúar.
Í tilkynningu segist Icelandair ætla að birta kolefnislosun mánaðarlega með flutningatölum, í takt við umhverfisstefnu félagsins. Gefin verður út heildarlosun annars vegar og losun á tonnkílómetra hins vegar. Kolefnislosun á tonnkílómetra er mælikvarði sem tekur mið af farþegafjölda og frakt.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Uppbyggingin undanfarna mánuði hefur verið mikil og við höfum séð jákvæða þróun á bókunarstöðu. Eftir því sem löndin í kringum okkur og stjórnvöld hér á landi aflétta takmörkunum finnum við að ferðahugur eykst. Þrátt fyrir að neikvæðra áhrifa ómíkron afbrigðisins gæti enn í tölum janúarmánaðar er útlitið gott og bókunarstaða að styrkjast með hverjum deginum. Í flutningatölum fyrir janúar birtum við nú í fyrsta sinn upplýsingar um kolefnislosun. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að minnka losun á tonnkílómetra um 50% miðað við 2019 fyrir árið 2030 og um kolefnishlutleysi árið 2050 og birting þessara upplýsinga er í samræmi við umhverfisstefnu okkar."