Mér líst mjög vel á nýja starfið, í því felast gríðarlega spennandi tækifæri. Ég hef mikinn áhuga á fjármálum og rekstri og held að reynsla mín á því sviði og í áhættustýringu muni nýtast mér vel í starfinu," segir Magnea Árnadóttir sem hefur verið ráðin fjármálastjóri hjá Motus og Greiðslumiðlun Íslands.

„Ég hóf störf í september sem fjármálastjóri Greiðslumiðlunar Íslands, en þar falla undir fjármál og rekstrarhluti fyrirtækisins ásamt áhættustýringu lánasafna. Framundan hjá mér er að ná góðri yfirsýn yfir fjármálin hjá fyrirtækinu og mínar áherslur á komandi mánuðum eru að styrkja innviðina. Þar er ég sérstaklega að horfa til áhættustýringar og einföldunar ferla, auk þess að bæta nýtingu gagna."

Hún segir að starfsfólkið hjá Motus og starfsandinn hafi skipt hana miklu máli. „Það heillar mig ekki síður en starfið sjálft hvað það starfar mikið af flottu fólki hjá félaginu sem ég er mjög spennt að vinna með. Það skiptir mig miklu máli hvernig starfsumhverfið er," segir Magnea, en hún kemur til Motus frá Íslandsbanka þar sem hún starfaði í tæp þrettán ár. „Það var mjög gott að vinna hjá Íslandsbanka, það er góður vinnustaður og mikið af góðu fólki þar, eins og hjá Motus."

Magnea er gift Ásgeiri Erni Ásgeirssyni verkfræðingi og einum af stofnendum Meniga. Þau eiga þrjú börn og eru nýflutt í Mosfellsbæ. „Við fluttum fyrir einu og hálfu ári síðan, en ég er alin upp í Reykjavík og hef búið þar mest megnis."

Hún er mikil útivistarmanneskja og hefur sérstaklega gaman af ferðalögum og skíðum. „Ég reyni að fara sem oftast á skíði yfir veturinn. Ég er bæði á svigskíðum og gönguskíðum, en í fyrra fjárfesti ég í fjallaskíðum og er á fjallaskíðanámskeiði núna í vetur sem ég er mjög spennt fyrir. Námskeiðið endar á fjallaskíðaferð á Hvannadalshnjúk sem verður krefjandi en skemmtileg áskorun."

Nánar er rætt við Magneu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .