Hönnunar- og auglýsingastofan Brandenburg hefur ráðið fjóra nýja starfsmenn. Þorleifur Gunnar Gíslason tekur stöðu hönnunarstjóra (e. Design director), Dana Rún Hákonardóttir er nýr viðskiptastjóri, Sóley Lee Tómasdóttir grafískur hönnuður og Hildur Hafsteinsdóttir textasmiður og prófarkalesari. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þorleifur Gunnar hefur víðtæka reynslu sem hönnuður og listrænn stjórnandi. Hann lauk námi í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og starfaði síðar hjá hönnunarstofunum Aton.JL og Genki Studios. Þá situr Þorleifur í stjórn Félags íslenskra teiknara og í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands. Þorleifur hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, bæði hér á landi og erlendis.
Dana Rún lauk BA-námi í Music and Media Management frá London Metropolitan University og MS-prófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt markaðsmálum hjá fjölda íslenskra og alþjóðlegra fyrirtækja. Dana starfaði sem markaðssérfræðingur hjá Símanum, við viðskiptaþróun og verkefnastjórn hjá Plain Vanilla og við umsjón á Iceland Airwaves.
Sóley Lee Tómasdóttir er grafískur hönnuður og útskrifaðist frá Listaháskólanum 2020. Áður en Sóley gekk til liðs við Brandenburg starfaði hún hjá Ketchup Creative við hönnun og hugmyndavinnu. Sóley hefur einnig tekið þátt í ýmsum sýningum á grafískum verkum sínum á Íslandi og erlendis.
Hildur Hafsteinsdóttir er með BA-próf í almennum málvísindum og MA-próf í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði sem rannsakandi og verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands og síðar sem verkefnastjóri máltækniverkefna hjá Stofnun Árna Magnússonar. Þá hefur Hildur starfað við prófarkalestur hjá Landsrétti.
Sigríður Theódóra Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Brandenburgar:
„Það er auðvitað frábært að fá þetta hæfileikafólk til starfa. Það hefur aldrei verið mikilvægara að nýta ferskar hugmyndir af útsjónarsemi til að auka virði íslenskra vörumerkja. Þetta er einmitt það sem einkennir allt starf á Brandenburg. Þolli, Dana, Sóley og Hildur falla vel í hópinn og auka enn á breiddina hjá okkur."