Flugfélög víða um heim hafa átt í vök að verjast á þessu ári, ekki síst í Banaríkjunum. Á fimmtudag greindi Southwest Airlines frá því að áætlaður 1 milljarða dollara EBIT-hagnaður sé fyrir bí.
Á sama tíma tilkynnti American Airlines að það búist við tapi á þriðja ársfjórðungi. Margir neytendur ákváðu að sleppa því að fljúga á vit ævintýranna í sumarfríinu vegna áhyggja af efnahagsástandinu. Þetta hefur orðið til þess að flugfélög hafa neyðst til að lækka fargjöld til að fylla sætin – sérstaklega innanlands og á sumarleyfisáfangastöðum.
„Staðan er sú að innanlandsnetið hefur verið undir miklum þrýstingi vegna óvissu í efnahagslífinu og tregðu farþega til að ferðast,“ sagði Robert Isom, forstjóri American Airlines, á fundi með fjárfestum á fimmtudag.
Í byrjun árs voru flugfélögin bjartsýn og töldu að eftirspurn eftir ferðalögum myndi áfram verða mikil, viðskiptaferðalög myndu halda áfram að aukast eftir heimsfaraldurinn og að viðskiptavinir myndu sætta sig við hærri fargjöld. Þeirri von var hins vegar fljótt eytt. Röð öryggisatvika – þar á meðal mannskætt flugslys í janúar – hafði áhrif á traust farþega.
Þar að auki fóru efasemdir um þróun hagkerfisins að aukast. Þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í apríl um víðtæka tollaálagningu, tóku mörg flugfélög afkomuspár sínar fyrir árið úr sambandi þar sem óvissan var einfaldlega orðin of mikil.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.