Konur hafa lengi verið í miklum minnihluta meðal forstjóra á Íslandi, þrátt fyrir mikla menntun, starfsreynslu og jafnréttislöggjöf. Ný rannsókn eftir Hrefnu Guðmundsdóttur, Þóru Christiansen og Ástu Dís Óladóttur bendir til þess að vandinn liggi oft í ráðningarferlinu sjálfu.

Rannsóknin byggir á viðtölum við reynda ráðgjafa frá helstu ráðningarskrifstofum landsins sem hafa haft milligöngu um ráðningu fjölmargra forstjóra á Íslandi.

Ráðningarskrifstofur landsins eru nokkrar talsins en ráðgjafarnir sem rætt var við í rannsókninni koma frá þeim helstu, þar á meðal Hagvangi. Geirlaug Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, fagnar umfjölluninni og tekur undir þær ábendingar sem fram koma í rannsókninni. 

„Við hjá Hagvangi höfum komið að fjölda ráðninga í forstjórastöður á síðastliðnum áratugum og átt þátt í að fjölga kvenforstjórum á Íslandi. Við teljum þróunina vissulega vera í rétta átt hvað varðar kynjajafnrétti á íslenskum vinnumarkaði en hún er hægfara og mætti ganga hraðar fyrir sig,“ segir Geirlaug en GEMMAQ kynjakvarðinn varpi meðal annars ljósi á kynjahalla meðal forstjóra og stjórnarformanna.

„Það er einnig mikilvægt að jafna kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum fyrirtækja því í þeim stöðum fær fólk dýrmæt tækifæri til að spreyta sig sem stjórnendur og öðlast þannig reynslu til að stíga upp í forstjórastöður,“ segir Geirlaug enn fremur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.