Freyr Ólafsson, framkvæmdastjóri Parka, gagnrýnir Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra harðlega í aðsendri grein á Vísi fyrir að fara með gagnrýni fjölskyldu úr Grafarvogi um upplýsingagjöf og greiðsluskilmála vegna gjaldskyldu á bílastæðum við Kirkjufell á opinberan vettvang.

Freyr tekur fram að umrætt mál tengist Parka ekki en gagnrýnir þó viðbrögð ráðherranns.

Hanna Katrín birti í gærmorgun færslu á Facebook þar sem hún sagði frá rukkun upp á 5.750 krónur sem fjölskyldunni barst vegna gjaldskyldunnar en þar af var 4.500 króna vangreiðslugjald.

Ráðherrann tók fram að hún væri ekki að gagnrýna gjaldskylduna sjálfa en sagði mikilvægt að upplýsingar um verð og greiðsluskilmála séu skýrar. Þeim skilaboðum hafi verið beint til bílastæðafyrirtækja.

Freyr, sem segist hafa fengið símtal frá fjölmiðli vegna færslunnar, furðar sig á því að ráðherra ferðaþjónustunnar fari með mál af þessum toga á opinberan vettvang og brigsli viðkomandi fyrirtæki um ólöglega gjaldtöku.

„Ekki orð um að fjölskyldan hafi ekki greitt fyrir þjónustuna, heldur verður stormur vegna þess að mögulega hafi gjaldskylduskilti ekki verið alveg nægilega áberandi. Mögulega. Sönn saga!“ skrifar Freyr.

Hann segist hafa fullan skilning á það sé sárt að borga „slugsagjald“ en slíkt gjald sé lagt á til að stuðla að því að greitt sé fyrir þjónustuna.

„[Þ]egar búið er að leggja í kostnað við uppbyggingu á bílastæðum, t.d. við vinsæla ferðamannastaði þar sem þörf er á slíku, með tilheyrandi viðhaldi og öðrum kostnaði, þá vilja eigendurnir gjarnan að þeir sem nota þjónustuna greiði fyrir veruna og engin slugsagjöld séu nauðsynleg.

En… rétt eins og við vitum, ef engir stöðumælaverðir hefðu gengið um götur við gjaldskyld stæði, þá hefðu líklega fleiri fallið í freistni og sleppt því að borga í stöðumælinn. Það er ástæða fyrir því að um allan heim er málum svona fyrir komið, virk eftirfylgni.“

Freyr lýkur greininni á að segjast vona eftir því að ferðaþjónustufyrirtæki muni áfram njóta athygli atvinnumálaráðherra „þó vonandi á uppbyggilegri nótum“. Hann býður jafnframt Hönnu Katrínu í spjall um hvað betur mætti fara.