Elon Musk, forstjóri Tesla, gaf eigin hlutabréf í rafbílaframleiðandanum að markaðsvirði 5,74 milljarða dala, eða sem nemur 717 milljörðum króna, til góðgerðamála í nóvember síðastliðnum. Ekki var tekið fram í kauphallartilkynningum hvaða góðgerðasamtök væri um að ræða
Hann gaf hlutabréfin um svipað leyti og hann seldi 10% af hlut sínum í Tesla fyrir 16,4 milljarða dala í byrjun nóvember. Musk sagði á Twitter að hann myndi greiða meira en 11 milljarða dala í skatta fyrir síðasta ár vegna kauprétta sem renna út síðar í ár.
Greiningaraðilar sem fréttaveitan Reuters ræddi við segja að með gjöfinni geti Musk sparað allt að helming gjafarinnar í tekjuskatt, verði hún frádráttarbær frá tekjuskatti hans í Kaliforníufylki ásamt því að þurfa ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af bréfunum.
Musk situr nú í öðru sæti yfir stærstu gjöfina til góðgerðamála á síðasta ári, einungis eftir Bill Gates og Melinda French Gates, samkvæmt gögnum frá Chroincle of Philanthropy.