Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 3,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða um einn milljarður króna, var með hlutabréf Íslandsbanka en gengi bankans stóð í stað í 127 krónum á hlut.
Íslandsbanki tilkynnti í gærkvöldi um nýja umferð endurkaupa þar sem bankinn hyggst kaupa allt að 9 milljónir hluta, eða um 0,48% af útgefnu hlutafé bankans, fyrir allt að einn milljarð króna.
Næst mesta veltan var með hlutabréf Hampiðjunnar sem hækkuðu um 2,5% í dag. Um tvöleytið í dag fóru í gegn 372 milljóna króna viðskipti með bréf Hampiðjunnar á genginu 124 krónur á hlut. Um er að ræða 0,47% hlut í veiðafæraframleiðandanum.
Hlutabréfaverð Hampiðjunnar hefur nú hækkað um 7,9% frá því á fimmtudaginn síðasta og stendur nú í 123 krónum á hlut. Dagslokagengi Hampiðjunnar var síðast hærra í ágúst 2024.
Auk Hampiðjunnar þá hækkaði gengi hlutabréfa Play, Eikar, Icelandair og Ölgerðarinnar um meira en eitt prósent í dag. Hlutabréfaverð Eimskips og Sýnar lækkaði um meira en eitt prósent.