Gengi hlutabréfa leikjaveitunnar Roblox hríðféll á miðvikudaginn í kjölfar ársfjórðungsuppgjörs sem félagið birti í vikunni. Gengið lækkaði um rúm 24% og hefur það aldrei verið jafn lágt og nú, í 55 dölum á hlut. Þetta kemur fram í frétt hjá CNBC .
Leikjaveitan birti uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung á þriðjudaginn. Þar kom fram að tekjur fyrirtækisins hefðu verið um 770 milljónir Bandaríkjadala á fjórðungnum, samanborið við spá greiningaraðila um tekjur upp á 772 milljónir dala. Tæplega 50 milljónir notuðu Roblox daglega á fjórða ársfjórðungi samkvæmt uppgjöri félagsins. Leikjaveitan gerir notendum kleift að hanna sína eigin leiki og spila leiki sem aðrir notendur hafa búið til.
Michael Guthrie, fjármálastjóri félagsins, segir daglega notendur leikjaveitunnar fækka með hverjum deginum nú þegar börn og unglingar eru farin að mæta í skólann aftur. Síðustu tvö ár hafi verið fordæmalausir tímar hjá leikjaveitunni þar sem börn og unglingar voru heima á virkum dögum en ekki í skólanum.