Hluta­bréfa­verð Icelandair lækkaði um 14% við opnun markaða í dag en félagið birti árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Fyrir við­skipti dagsins hafði gengi flug­félagsins verið á miklu skriði og hækkað um rúm 24% síðastliðinn mánuð.

Dagsloka­gengi Icelandair var 1,28 krónur í gær en stendur í 1,1 krónu núna.

Icelandair hagnaðist um 12,9 milljónir dala á öðrum árs­fjórðungi, eða sem nemur 1,65 milljörðum króna. Til saman­burðar hagnaðist félagið um 0,6 milljónir dala á sama tíma­bili í fyrra.

Heildar­tekjur flug­félagsins á öðrum fjórðungi jukust um 13% milli ára og námu 59,1 milljarði króna.

Farþega­tekjur jukust um 11% milli ára og námu milljörðum króna, og hafa aldrei verið meiri á öðrum fjórðungi hjá flug­félaginu.

EBIT-hagnaður Icelandair nam 775 þúsund dölum á fjórðungnum saman­borið við 3,3 milljónir dala á sama tíma­bili í fyrra.

Icelandair áætlar að neikvæð áhrif af styrkingu íslensku krónunnar á EBIT-hagnað félagsins á öðrum ársfjórðungi hafi verið um 12,6 milljónir dala, eða um 1,5 milljarðar króna.

„Raungengi íslensku krónunnar er nú nálægt sögulegu hámarki. Sagan sýnir að þessi staða er ósjálfbær og mikil áskorun fyrir útflutningsgreinar þjóðarinnar,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í uppgjörstilkynningu flugfélagsins.

„Þess vegna er nauðsynlegt að efnahagsstefna stjórnvalda endurspegli þennan veruleika, ekki síst í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt áform um að auka skattlagningu á ferðaþjónustu.“