Gengi Intel hækkaði um meira en 7% við lokun markaðs í gær í kjölfar frétta um að ríkisstjórn Donalds Trumps ætti í eignarhlutaviðræðum við örgjafaframleiðandann. Bloomberg greindi fyrst frá þessu en óljóst er hversu stór hluti stjórnarinnar yrði.
Kush Desai, talsmaður Hvíta hússins, segir að viðræðurnar ættu aðeins að teljast sem vangaveltur á þessu stigi þar til ríkisstjórnin tilkynnir formlega aðild sína.
Viðræðurnar koma aðeins örfáum dögum eftir að Donald Trump sakaði Lip-Bu Tan, forstjóra Intel, um hagsmunaárekstra vegna fyrri tengsla hans við Kína. Talsmaður Intel hefur ekki viljað tjá sig um málið en fyrirtækið segist vera staðráðið í að styðja við viðleitni Bandaríkjaforseta og að styrkja forystu Bandaríkjanna í tækni og framleiðslu.
Aðkoma ríkisstjórnarinnar að Intel myndi veita fyrirtækinu mikla fjármögnun en áform liggja meðal annars fyrir um uppbyggingu á framleiðslumiðstöð í Ohio-ríki. Fyrirtækið hefur þá einnig verið í mikilli samkeppni við Nvidia á meðan markaðsvirði þess hefur meira en helmingast frá 2020.
David Nicholson hjá markaðsrannsóknarfyrirtækinu The Futurum Group segir að viðræðurnar séu merki um aukna samvinnu bandarísku ríkisstjórnarinnar og einkafyrirtækja vegna aukinnar tækniþróunar í löndum eins og Kína.
„Sumir telja kannski að það sé ósanngjarnt að Intel sé stutt af bandarískum stjórnvöldum en ég held að flestir séu sammála um að það sé hernaðarlega mikilvægt fyrir Bandaríkin,“ segir Nicholson