Hluta­bréfa­verð flug­félagsins Play hefur hægt og ró­lega tekið við sér í ör­við­skiptum í ágúst­mánuði en gengið hefur nú hækkað um 37,5% í mánuðinum.

Gengi Play tók kipp við opnun markaða í afar litlum við­skiptum og hefur hækkað um 8% í dag.

Play hafði sent neikvæða af­komu­viðvörun 21. júlí og lækkaði gengið tölu­vert undir lok mánaðar. Þrátt fyrir hækkunina í byrjun ágústmánaðar hefur gengi flugfélagsins til að mynda enn lækkað um 18% á síðustu 4 vikum.

Í árs­hluta­upp­gjöri félagsins sem birtist í síðustu viku segir að félagið geri ráð fyrir að skila hagnaði á árinu 2026.

Play tapaði 15,3 milljónum dala á öðrum árs­fjórðungi 2025, eða sem nemur tæp­lega 1,9 milljörðum króna, saman­borið við 10 milljóna dala tap á öðrum árs­fjórðungi 2024.

Flug­félagið Play flutti alls 124.587 farþega í júlí 2025, sem er tals­vert færri en á sama tíma í fyrra þegar farþega­fjöldinn nam 187.835.

Félagið segir sam­dráttinn skýrast af því að færri flug­vélar hafi verið í áætlunar­flugi vegna leigu til annarra flug­rek­enda.

Sam­kvæmt Hans Jørgen Elnæs, norskum greinanda og ráðgjafa á flug­markaði, eru vaxta­kjör á breytan­legum skulda­bréfum sem Play áformar að gefa út með þeim hærri sem sést hafa í sam­bæri­legum út­gáfum í flugiðnaðinum á síðustu árum.

Play til­kynnti fyrir mánuði síðan um að félagið hefði tryggt sér áskriftar­lof­orð um kaup fjár­festa á breytan­legu skulda­bréfi að saman­lögðu and­virði 2.425 milljónir króna eða um 20 milljónir dala.

Breytan­legu skulda­bréfin munu bera 17,5% fasta vexti og er gjald­dagi 24 mánuðum eftir út­gáfu­dag.

Engar vaxta­greiðslur fara fram fyrstu 12 mánuði lánstímans, en áfallnir og ógreiddir vextir bætast við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

Þar á eftir greiðast vextir mánaðar­lega sem nema helmingi áfallinna vaxta vegna hvers mánaðar.