Netflix segist hafa notað gervigreind í fyrsta sinn til að gera tæknibrellur fyrir framleiðslu á sjónvarpsþáttunum The Eternauts. Á vef BBC segir að notkun gervigreindar hafi verið umdeild innan skemmtanaiðnaðarins vegna áhyggna um hugverkastuld og starfsmissi.

Ted Sarandos, meðforstjóri Netlix, segir að gervigreindin hafi verið notuð til að framleiða myndbönd og myndir sem byggðar voru á fyrirmælum sem hún fékk við framleiðslu á argentínsku vísindaskáldskapsþáttunum.

Hann segir að tæknin geri framleiðsluteyminu kleift að klára atriði mun hraðar og með ódýrari hætti. Ummælin voru látin falla samhliða uppgjöri Netlix sem greindi frá 16% tekjuaukningu á síðasta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra.

Tekjur Netflix námu 11 milljörðum dala á meðan hagnaður streymisveitunnar jókst úr 2,1 milljarði dala í 3,1 milljarð dala.