Útsendingar frá fótboltaleikjum á Íslandi gætu tekið miklum framförum á næstunni með uppsetningu á svokölluðum snjallvöllum á helstu fótboltavöllum landsins. OZ Sports, sem er sprottið upp úr nýsköpunarfyrirtækinu OZ, hefur á undanförnum árum unnið að þróun á íþróttavélbúnaði sem inniheldur upptökubúnað sem krefst ekki tökumanna.

OZ Sports samdi á dögunum við Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) og Íslenskan toppfótbolta (ÍTF) um innleiðingu á útsendinga-snjallbúnaðinum sem verður tekinn í notkun hér á landi í lok október. Lausn OZ hefur þegar verið prófuð í samstarfi við Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) fyrir úrvalsdeild Dóminíska lýðveldisins á yfir tvö hundruð knattspyrnuleikjum.

Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ Sports, segir að fyrirtækið stefni á að koma upp snjallbúnaðinum á 28 fótboltavöllum hér á landi sem kynntir verða síðar. Hægt verður að sýna frá öllum leikjum frá viðkomandi völlum.

„Það hefur verið mikil eftirvænting að fá fyrsta OZ snjallvallar-kerfið til landsins. Það er búið að vera gott samtal við klúbbana við að kortleggja þeirra óskir og þarfir. Sama er að segja með rétthafana, sem vilja alltaf bæta útsendingarnar til að gera upplifunina fyrir áhorfendur enn betri.“

Gera ekki upp á milli úrvalsdeildar eða pollamóts

Framtíðarsýn OZ Sports er að gera íþróttaviðburði hjá ungum iðkendum hátt undir höfði með útsendingum sem jafnast á við efstu deildir í knattspyrnu sem dæmi. OZ vinnur að því að gera þessa sýn að veruleika með því að beita nýjum aðferðum í tækni róbóta, gervigreindar, tölvugrafíkur og hugbúnaðartækni sem oftast er notuð við gerð tölvuleikja.

„Við hjá OZ Sports gerum ekki greinarmun á úrvalsdeild eða pollamóti. Það hefur verið okkar köllun að láta meira að segja pollamótin líta út eins og úrslitaleik í Meistaradeildinni,“ segir Guðjón Már.

Fjallað verður nánar um OZ Sports í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.