Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir Ísland standa frammi fyrir gríðarlegum tækifærum vegna orkuskipta og að um sé að ræða risastórt efnahagslegt mál.

„Þetta getur orðið glæný hugvitsdrifin atvinnugrein sem byggir ofan á því sem fyrir er og sprettur síðan upp frá grunni, það er ef við ákveðum að nýta tækifærin. Þetta gerist ekki af sjálfu sér, þetta gerist bara ef við ákveðum að taka á móti þessum tækifærum," segir Þórdís Kolbrún.

Innt eftir því hvernig framtíð orkumála gæti litið út, segir hún það ráðast af hugvitinu. „Ég sé til dæmis fyrir mér að þessi nýja grein muni hlaðast ofan á þau iðnaðarsvæði sem við höfum í dag. Þessi svæði verði algjör hringrásarhagkerfi þar sem úrgangur og mengun úr einu fyrirtæki eru verðmæti og auðlind fyrir það næsta. Þannig umbreytum við því sem í dag er áskorun, til að mynda losun sem fylgir stóriðju, í raunveruleg tækifæri."

Hvaðan á raforkan að koma?

Hlutverk stjórnvalda sé að sjá til þess að jarðvegur hugmynda sé frjór, regluverkið einfalt og skilvirkt og stefnan skýr. „Með orkustefnunni segjum við að við ætlum að vera óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 og fyrir mitt leyti ætlum við í raun að verða fyrst í heimi, hvenær sem það verður raunhæft. Þar segjum við til að mynda líka að við ætlum að nýta þá orku sem við höfum þegar framleitt betur, fara í fjölbreytta auðlindastrauma og hringrásarhagkerfi almennt. Það er almennur samhljómur um það að fara í orkuskipti, hvort sem er í samgöngum á landi, þungaflutningum, í framtíðinni á skipum og jafnvel í flugi. Við ræðum líka um verkefni tengd vetnisframleiðslu, kolefnisförgun, kolefnisföngun til að nýta í rafeldsneyti og svo framvegis - og það er alveg ljóst að öll þessi verkefni kalla á raforku."

Þar standi aftur á móti hnífurinn í kúnni. Á sama tíma og mikill samhljómur er í umræðu um orkuskiptin, þá vandast málin þegar rætt er um hvaðan raforkan eigi að koma. Varðveisla náttúruperla sé öllum hugleikin og finna þurfi eitthvert skynsamlegt jafnvægi.

„Við höfum mikið rætt hvað við viljum stóran þjóðgarð á hálendinu þar sem ekki megi virkja og það er fyrirvari á því að vindorka sé sjálfsögð viðbót við þá orkuframleiðslu sem við þegar höfum. Það er talað um að ekki sé vilji til þess að virkja frekara vatnsafl á Íslandi og að vindorkan megi ekki vera í dalnum, hún megi ekki vera þar sem ferðamenn fara um, hún megi ekki heldur vera á hálendinu og hún megi ekki vera í víðerninu. Ég spyr því: Hvaðan á sú raforka að koma sem mun gera okkur kleift að taka þátt í þessari ótrúlega spennandi framtíð?"

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .