Úrvalsvísitalan hækkaði um nærri eitt prósent í 2,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þrettán félög á aðalmarkaðnum hækkuðu og þrjú félög lækkuðu í viðskiptum dagsins.
Iceland Seafood (ISI) hækkaði mest allra félaga eða um tæp 2% í 53 milljóna veltu. Gengi ISI stendur nú í 15,7 krónum og hefur hækkað um 9,4% frá því á þriðjudaginn síðasta, sem var lægsta stig ISI frá því í febrúar 2021.
Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 1,8% í 573 milljóna viðskiptum. Hlutabréfaverð Marels hefur engu að síður lækkað um 7,3% í ár og stendur nú í 810 krónum.
Flest viðskipti voru með hlutabréf Icelandair sem hækkuðu um hálft prósent og eru komin upp í 2,06 krónur á hlut. Gengi flugfélagsins fór upp í 2,09 krónur þegar mest lét í dag. Gengi Play byrjaði daginn í plús en endaði í 23,0 krónum við lokun Kauphallarinnar sem er um 0,4% lækkun frá gærdeginum.
Sýn lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 0,8%, þó í aðeins 39 milljóna viðskiptum. Einnig lækkaði Reginin um 0,6% og Hagar um 0,4%.
Velta á skuldabréfamarkaðnum nam 5,6 milljörðum króna í dag. Enn hækkaði ávöxtunarkrafa á flestum óverðtryggðum skuldabréfaflokkum, mest í flokknum RIKB250612 eða um 12 punkta.