Hagnaður Greenwater ehf. nam 342 milljónum króna á síðasta rekstrarári, sem nær yfir tímabilið 1. mars 2020 til 28. febrúar 2021. Fyrra rekstrarár nam hagnaður félagsins 62 milljónum króna og tæplega sexfaldaðist hagnaðurinn því á milli rekstrarára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem nær yfir umrætt tímabil. Greenwater er eignarhaldsfélag sem fjárfestir aðallega í fyrirtækjum sem annast smásölu á húsgögnum og húsbúnaði í sérverslunum. Dótturfélög Greenwater reka verslanir undir merkjum Betra Baks, Hästens, Dorma, Húsgagnahallarinnar og Dorma Home, vöruhúsaþjónustu og dreifingu undir merkjum Rekka vöruhótels, auk heildsölu með skófatnað undir merkjum Kosy Shoes. Rekstrartekjur námu 4,4 milljörðum króna á síðasta rekstrarári en árið áður námu tekjur félagsins 3,1 milljarði króna. Hækkuðu tekjur félagsins því um 42% milli rekstrarára.
Í byrjun tímabilsins sem ársreikningurinn spannar var Covid-19 heimsfaraldurinn að taka sér bólfestu hér á landi og setti faraldurinn daglegt líf landsmanna úr skorðum allt tímabilið sem ársreikningurinn nær, og lengur. Faraldurinn bitnaði verulega á sumum atvinnugreinum meðan ástandið leiddi til þess að aðrar blómstruðu. Má ætla að hið síðara hafi átt við Greenwater, enda hefur íslensk verslun blómstrað sem aldrei fyrr á faraldurstímum.
Dótturfélög Greenwater selja sem fyrr segir húsgögn og húsbúnað og nýttu einmitt margir tækifærið á meðan heimveran var hvað mest í faraldrinum til að fegra heimilið. Ofangreindar tölur úr rekstri síðasta árs renna stoðum undir þá kenningu að heimsfaraldurinn hafi haft jákvæð áhrif á rekstur Greenwater. Þegar horft er fimm rekstrarár aftur í tímann má sjá að tekjur félagsins hafa verið á bilinu 2,7 til 3,1 milljarður, en á síðasta rekstrarári tóku tekjurnar eins og fyrr segir stökk upp í 4,4 milljarða.
Í 97% eigu bræðra
Bræðurnir Guðmundur Gauti Reynisson og Egill Fannar Reynisson eru stærstu hluthafar Greenwater, hvor um sig með 48,5% hlut í sinni eigu. Meðan allur hlutur Guðmundar er skráður á hann sjálfan er 28,5% hlutur skráður á Egil, en hinn 20% eignarhlutur hans er í gegnum félag í hans eigu, Reykjavík Beds ehf. Eftirstandandi 3% eru svo í eigu Austurdals ehf., sem er alfarið í eigu Halldórs Ólafs Halldórssonar. Í ársreikningi kemur fram að stjórn félagsins hafi gert tillögu um að greiddur yrði 80 milljóna króna arður til hluthafa á árinu 2021 vegna rekstrar fyrri ára.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .