Breska dagblaðið Financial Times (FT) valdi Guðmund Kristjánsson, forstjóra og stofnanda Lucinity, til að skrifa fyrir nýja auglýsingaherferð. Heilsíðuauglýsing með tilvitnun í Guðmund birtist í blaði FT í gær.
Herferðin kallast ‚Letters to this New World‘ og er markmiðið með henni að staðsetja Financial Times sem leiðandi umræðuvettvang um þróun heimsmála. Í herferðinni skrifa blaðamenn FT og sérvaldir aðilar bréf til heimsins þar sem reynt er að draga lærdóm af heimsfaraldrinum. Fjallað er um flókin og alþjóðleg viðfangsefni á borð við fjártækni, loftlagsvá, vinnustaðamenningu og misskiptingu auðs. Herferðin er samstarfsverkefni FT og Brooklyn Brothers.
Í bréfi sínu fjallar Guðmundur um mikilvægi þess að opinberir aðilar og fjármálafyrirtæki nýti nýja tækni til að ná markmiðum Sameinuðu Þjóðanna um að draga verulega úr fjármálaglæpum. Guðmundur bendir á að markmið Sameinuðu þjóðanna náist ekki nema að ný tækni á borð við gervigreind sé innleidd og nýtt með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Sú tækni og aðferðarfræði sem nú ráði för í baráttu við peningaþvætti og aðra fjármálaglæpi sé úreld og dugi hvergi nærri til.
„Mansal, þrældómur og hryðjuverk eru hræðileg vandamál sem eru of stór fyrir stofnanaleg egó,“ skrifar Guðmundur en nálgast má bréf hans hér . Hann segir lykillinn að árangri í baráttu við fjármálaglæpi og skelfilegar afleiðingar þeirra sé notendavæn tækni sem valdefli fólk í baráttunni við þessa glæpi.
Lucinity, sem var stofnað í lok árs 2018, framleiðir hugbúnað sem hjálpar bönkum að verjast gegn peningaþvætti með svokallaðri hjálpargreind. Viðskiptablaðið ræddi við Guðmund síðasta sumar um hraðan vöxt sprotafyrirtækisins.