Bílaumboðið Hekla hagnaðist um 70 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við 596 milljóna hagnað árið áður. Það samsvarar 88% samdrætti milli ára.
Rekstrartekjur Heklu drógust saman um 35% milli ára, úr 18,4 milljörðum króna, í 11,9 milljarða króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 178 milljónum í fyrra samanborið við 900 milljónir árið 2023.
Stjórn Heklu bendir í ársreikningi félagsins á að nýskráning fólksbíla á árinu 2024 hafi dregist saman um 42% samanborið við árið 2023. Alls voru 10.108 fólksbílar nýskráðir á árinu 2024, samanborið við 17.442 á árinu 2023. Samdrátturinn var mestur í rafbílum, en hlutfall rafbíla í nýskráningum var um 44% samanborið við 73% á árinu 2023.
„Þessi mikla fækkun í sölu nýrra bifreiða hafði mikil áhrif á rekstur Heklu á árinu og er stærsta skýring þess að tekjur lækka um 35% og framlegð um 21% milli ára. Mikil fækkun í skráningu rafbíla var fyrirtækinu sérstaklega erfið, en Hekla hefur lagt mikla áherslu á rafbíla í vöruframboði sínu undanfarin ár,“ segir í skýrslu stjórnar.
„Með aðhaldi í kostnaði tókst að skila hagnaði á árinu, þrátt fyrir þessa miklu lækkun í framlegð.“
Breytingar stjórnvalda leitt til hruns í sölu rafbíla
Félagið segir að ýmsir ytri þættir hafi haft áhrif á rekstur. Stjórnvöld hafi til að mynda dregið úr stuðningsaðgerðum til kaupa á umhverfisvænum ökutækjum sem felur m.a. í sér að nú er fullur virðisaukaskattur lagður á tengiltvinnbíla og rafbíla. Jafnframt hafi aðflutningsgjöld verið lögð á þessar bifreiðar auk kílómetragjalds á akstur þeirra. Á móti geti kaupendur á rafbílum undir 10 milljónum sótt um styrk að hámarki 900 þúsund.
„Heildaráhrifin af þessum breytingum er nokkur verðhækkun á bifreiðum knúnum áfram af orkugjöfum. Leiða má því líkur að þetta sé stærsta skýring á því hruni sem varð á nýskráningum rafbíla á árinu 2024. Líklegt er að þessar breytingar muni halda áfram að hafa áhrif á eftirspurn eftir rafbílum.“
Eignir Heklu voru bókfærðar á 3,9 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var tæplega 2,5 milljarðar króna. Stjórn Heklu lagði til við aðalfund að greiddur verði arður að upphæð 1.000 milljónir króna til móðurfélagsins Jökla.
„Tilgangur arðgreiðslunnar er að gera móðurfélaginu betur kleift að styðja við þróun samstæðunnar.“
Jöklar eru móðurfélag Heklu hf. og Heklu fasteigna ehf. Jöklar festu einnig kaup á Dekkjasölunni ehf. í lok síðasta árs. Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, er eigandi Jökla.
Lykiltölur / Hekla hf.
2023 |
18.388 |
900 |
596 |
5.539 |
2.572 |
120 |