Vöruviðskipti voru hagstæð um 1,1 milljarð í janúarmánuði síðastliðnum, en fluttar voru út vörur fyrir 76,4 milljarða króna og inn fyrir 75,3 milljarða, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Halli hefur verið á vöruskiptum nær samfleytt frá því í mars 2015. Vöruskiptin voru neikvæð upp á 5 milljarða króna á sama tíma í fyrra, á föstu gengi.

Verðmæti vöruútflutnings í janúar 2022 jókst um 55,3% frá sama mánuði 2021, úr 49,3 milljörðum króna í 76,4 milljarða. Verðmæti vöruinnflutnings í janúar síðastliðnum jókst um 38,8% frá sama mánuði 2021, úr 54,3 milljörðum króna í 75,3 milljarða.

Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 16,9 milljarða króna, eða 63% samanborið við janúar 2021. Þar munar mestu um aukið útflutningsverðmæti áls. Tölurnar eru ekki leiðréttar fyrir verðbreytingum og því hefur álverð mikil áhrif á útflutningsverðmæti áls.

Verðmæti útfluttra sjávarafurða jókst um 7,6 milljarða króna, eða 44,3% samanborið við janúar 2021. Þar kom fiskeldið sterkt inn, en verðmæti útflutnings á fiskeldi jókst um 9 milljarða á tólf mánaða tímabili og mælist 5% af heildarútflutningsverðmæti á tólf mánaða tímabili.

Tölurnar sýna mikinn innlendan verðbólguþrýsting. Þar má meðal annars sjá að verðmæti innflutts eldsneytis jókst um 5,2 milljarða króna, eða 130,2% samanborið við janúar 2022, en heimsmarkaðsolíuverð hefur hækkað mikið að undanförnu.