Um er að ræða nýja sex þátta þáttaröð sem Act4 framleiðir fyrir Ríkisútvarpið og þýska ríkissjónvarpið ZDF en um er að ræða annað verkefni framleiðslufyrirtækisins.

„Það sem gaf þessu byr undir báða vængi og okkur finnst gríðarleg viðurkenning á gæðum og hrós er að þetta er fyrsta íslenska verkefnið sem er sett inn í svokallað New8 samstarf,“ segir Jónas Margeir Ingólfsson, framkvæmdastjóri Act4.

Um er að ræða samstarf átta ríkissjónvarpsstöðva í Evrópu en auk RÚV og ZDF eru í samstarfinu DR í Danmörku, SVT í Svíþjóð, NRK í Noregi, YLE í Finnlandi, NPO í Hollandi og VRT í Belgíu.

Þættirnir bera heitið Bless Bless Blesi á íslensku og Death of a Horse á ensku en þættirnir eru hugarfóstur Jónasar Margeirs og Birkis Blæs Ingólfssonar.

„Þetta er í grunninn "skandí-krimmi" eins og við þekkjum hann öll nema hvað, hinn myrti er ekki manneskja heldur hestur. Við fylgjumst með knapanum sem óvænt skýst upp á stjörnuhimininn á landsmóti hestamanna og hestinum sem verður allt í einu gríðarlega verðmætur,“ segir Jónas Margeir.

Tökur fara fram á Hólum í Hjaltadal, þar sem landsmót hestamanna fer raunverulega fram á næsta ári, og að sögn Jónasar hafa þau átt í góðu samstarfi við heimamenn. Fjölmennt er í Skagafirðinum um þessar mundir, enda stærðarinnar verkefni, en á stærstu tökudögunum eru um 120 manns á setti. Þá má ekki gleyma hestunum sjálfum, sem getur þó verið erfiðara að eiga við.

„Það er svolítið eins og að eiga við íslenska veðrið, maður þarf bara að vera æðrulaus gagnvart því, en það hefur gengið alveg glettilega vel. Við höfum notið þess að við erum með ofboðslega hæfa íslenska hestamenn með okkur í þessu og gríðarlega góða hesta,“ segir Jónas Margeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.