Gengi bréfa þýskra hergagnaframleiðenda rauk upp við opnun markaða í gær, í kjölfar yfirlýsinga Olaf Scholz kanslara Þýskalands um aukið fjármagn til varnarmála. Þetta kemur fram í grein Financial Times . Scholz lýsti því yfir að Þýskaland myndi verja 100 milljörðum evra í herbúnað á þessu ári, eða um tvö prósent af landsframleiðslu.
Gengi bréfa Rheinmetall, sem framleiðir meðal annars skriðdreka og brynvarða bíla fyrir NATO-ríkin, hækkaði um rúmlega 30% í gær. Gengi bréfa Hensoldt, sem framleiðir rafskynjara og er að hluta til í eigu bandaríska fjárfestingafélagsins KKR, hækkaði um 45% í viðskiptum gærdagsins.
Gengi bréfa hergagnaframleiðenda frá öðrum ríkjum álfunnar hefur einnig hækkað nokkuð í vikunni. Breski hergagnaframleiðandinn BAE Systems, sem er jafnframt sá stærsti í Evrópu, hækkaði um 14,5% í viðskiptum gærdagsins og hefur gengi bréfa félagsins aldrei verið hærra en nú.