Drangar hf., nýtt félag utan um Samkaup, Orkuna og Lyfjaval, gerir ráð fyrir að hagræðingaraðgerðir og aðrar breytingar í rekstri muni skila afkomubata upp á 2,5-3,0 milljarða króna á næstu tveimur árum.

Þetta kemur fram í tilkynningu Skeljar fjárfestingafélags, meirihlutaeiganda Dranga með 68% hlut, vegna uppgjörs annars ársfjórðungs.

Orkan, dótturfélag Skeljar, gekk nýlega frá kaupum á Samkaupum en kaupverðið var greitt með nýju hlutafé í Orkunni. Hluthafar Samkaupa fengu afhenta því sem nemur 28,7% hlutafjár í Dröngum hf., gegn afhendingu 98,6% hlut í Samkaupum.

Í kjölfarið var stofnað samstæðuna Dranga hf. utan um rekstur Orkunnar, Samkaupa og Lyfjavals. Stefnt er að skráningu Dranga í Kauphöllina fyrir árslok 2027. Áætlað er að félög undir samstæðu Dranga hafi velt 75 milljörðum króna á árinu 2024.

Ljóst að ná þurfi viðsnúningi í matvöruhlutanum

Undir matvöruhluta Dranga, sem mynda um 59% af tekjum samstæðunnar, eru bæði Samkaup, sem rekur yfir sextíu verslanir um landið, m.a. undir merkjum Nettó og Krambúðarinnar, og Atlaga (áður Heimkaup), móðurfélag Prís og netverslunarinnar Heimkaupa.

Rekstur félaganna hefur verið krefjandi að undanförnu en Samkaup töpuðu 910 milljónum í fyrra og Atlaga 2 milljörðum (sem skýrist m.a. af eins milljarðs virðisrýrnun).

Í tilkynningu Skeljar kemur fram að tekjur Samkaupa og Atlögu fyrstu sex mánuði ársins hafi numið 23,9 milljörðum króna, sem er 6,9% aukning frá sama tímabili fyrra árs. Framlegð fyrstu sex mánuði ársins var 5,8 milljarðar sem samsvarar 24,7% framlegðarhlutfalli.

„Það er ljóst að það þarf að ná viðsnúningi í matvöruhluta samstæðunnar svo að sameinað félag verði í farsælum rekstri. Náist það hafa Drangar alla burði til að leysa úr læðingi töluverð verðmæti,“ segir í fjárfestakynningu Skeljar.

Frá því Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna Samkaupa og Atlögu í júní sl. hefur verið unnið að því að bæta og styrkja rekstur Samkaupa.

„Töluverð tækifæri eru í lækkun kostnaðar og hafa hagræðingaraðgerðir nú þegar skilað árangri. Fækkun stöðugilda, einföldun skipurits, samræming þjónustusamninga, samnýting á innviðum og tæknilausnum eru allt atriði sem munu styðja við lækkun kostnaðar á næstu mánuðum og fram til loka árs 2026.“

Jafnframt segir í fjárfestakynningu Skeljar að greiningar ráðgjafa hafi sýnt að mögulegt sé að hagræða talsvert í innkaupum á matvöru. Félagið segir að farið verði í aðgerðir til að stemma stigu við rýrnun sem hafi verið mjög há.

Þá verði áhersla á að einfalda rekstur, m..a með fækkun vörunúmera og birgja. Þeim verslunum sem hafa verið í taprekstri verði ýmist lokað eða rekstarformi breytt. Minnst er á að vefverslun Heimkaupa með matvöru hafi verið lokað en hún hafi verið rekin í tapi.

Stefnt er á afkomubata upp á 2,5-3,0 milljarða króna hjá matvöruhluta Dranga á næstu 2 árum. Mynd tekin úr fjárfestakynningu Skeljar.

Halda Nettó og Prís aðskildu

Skel segir að markmið Dranga, sem reki nú 69 matvöruverslanir um landið, sé að einfalda framboð vörumerkja og búa til skýrari sérstöðu.

„Nettó mun leggja áherslu á vöruúrval og þjónustu á meðan Prís mun áfram einblína á lægsta mögulega verð. Með þessari tvíþættu nálgun einblínir félagið á ólíka markhópa og nýtir styrkleika sína.

Drangar eru með þéttasta útsölunet landsins og það er tækifæri í því að nýta það betur og skapa betri upplifun viðskiptavina sem aftur ýtir undir tryggð þeirra.“

Fram kemur að stefnt sé að því að fjölga Prís verslunum á höfuðborgarsvæðinu.

Segja félagið vel í stakk búið til ytri vaxtar

Það hefur ekki leynt sér að með Dröngum horfi Skel til að byggja upp þriðju stóru skráðu smásölusamstæðuna í Kauphöllinni. Í fjárfestakynningu Skeljar er að finna samanburð á Dröngum, Festi, móðurfélagi Krónunnar, Lyfju og N1, og Högum, móðurfélagi Bónus, Hagkaups og Olís.

Drangar eru enn um helmingi minni en hinar tvær samstæðurnar ef horft er til veltu, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þá er áætlað að EBITDAaL-framlegð hafi verið 2,6% hjá félögum í Dranga-samstæðunni í fyrra samanborið við 6,5% hjá Högum og 7,2% hjá Festi.

Skel segir að Drangar séu „sérstaklega vel í stakk [búnir] til ytri vaxtar með kaupum eða sameiningum við önnur smásölufyrirtæki“. Þá séu jafnframt innri vaxtarmöguleikar talsverðir, m.a. með bættum rekstri Samkaupa og útvíkkun á starfsemi Lyfjavals.

Skel áréttar að tekjur Haga í þessum samanburði miðast við fjárhagsárið 2024/2025. Þá kom Lyfja inn í rekstur Festis eftir annan ársfjórðung 2024.

Sækja 2 milljarða samhliða hagræðingaraðgerðum

Samhliða hagræðingaraðgerðum er stefnt að hlutafjáraukningu upp á a.m.k. 2 milljarða króna til að efla fjárhagsstöðu og samkeppnisstöðu Dranga. Gert er ráð fyrir að hlutafjáraukning Dranga hefjist í september og að henni ljúki á fjórða ársfjórðungi 2025.

Drangar hafa ráðið fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem umsjónaraðila verkefnisins og fyrirtækjaráðgjöf Fossa sem söluráðgjafa Íslandsbanki hefur veitt sölutryggingu á hlutafé í Dröngum að fjárhæð 2.000 milljónir króna.

Eiginfjárvirði Dranga eftir ofangreinda samruna er metið á 19,3 milljarða króna og heildarvirði (EV) félagsins á 27,3 milljarða.

Stærstu hluthafar Dranga

Hluthafi Eignarhlutur
Skel fjárfestingarfélag hf. 68,3%
Kaupfélag Suðurnesja 15,0%
Birta lífeyrissjóður 5,3%
Festa lífeyrissjóður 2,9%
Kaupfélag Borgfirðinga 2,8%
Norvik hf. 2,5%
Eignarhaldsfélag Bjarmi ehf. 1,8%
Aðrir hluthafar 1,4%