Heilsuræktarstöðin Hreyfing í Glæsibæ hagnaðist um 103 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 107 milljóna hagnað árið 2023.

Stjórn félagsins lagði til að greiddur verði arður vegna rekstrarársins 2024 að upphæð 120 milljónir króna. Félagið greiddi út 400 milljónir króna í fyrra með lækkun hlutafjár, að því er kemur fram í nýjum ársreikningi.

Velta Hreyfingar jókst um 10,8% milli ára og nam 1.139 milljónum króna í fyrra. Rekstrarkostnaður jókst um 11,5% og nam 951 milljón. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) fór úr 175 milljónum í 187 milljónir milli ára.

Eignir Hreyfingar voru bókfærðar á 421 milljón króna í árslok 2024 samanborið við 688 milljónir árið áður. Eigið fé félagsins nam 216 milljónum, samanborið við 512 milljónir í lok árs 2023.

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, á 4,6% hlut í heilsuræktarstöðinni í gengum félagið Bogmaðurinn ehf.. Stærsti hluthafi Hreyfingar með 45% hlut er Kólfur ehf., sem er að stærstum hluta í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins. Þá fer Bláa lónið með 22% hlut í Hreyfingu.

Meðal annarra hluthafa Hreyfingar eru Sigurður Þorsteinsson, Helgi Magnússon og Sigurður Arngrímsson.

Stærstu hluthafar Hreyfingar í árslok 2024

Hluthafi Eignarhlutur
Kólfur ehf. 45,4%
Bláa lónið ehf. 22,0%
Hofgarðar ehf. 9,7%
Saffron Holding ehf. 7,2%
M4 ehf. 5,2%
Bogmaðurinn ehf. 4,6%
Arða ehf. 3,0%
Bendi ehf. 1,0%
Anna G. Sverrisdóttir 0,8%
JÚ ehf. 0,3%
Aðrir hluthafar 0,8%
Samtals 100%