Bandaríski auðjöfurinn og áhrifafjárfestirinn, Carl Icahn, hefur selt yfir helming hluta sinna í Herbalife og mun um leið gefa eftir sæti sín í stjórn félagsins, en Ichan hefur verið stærsti hluthafi þess frá árinu 2013. Deilur Ichan við áhrifafjárfestinn William Ackman vegna Herbalife voru áberandi á liðnum áratug.
Herbalife tilkynnti í gær að Icahn hefði selt hluti að andvirði 600 milljóna Bandaríkjadala og að eignarhlutur fjárfestisins hafi við það lækkað úr 16% í um 6%. Icahn heldur því eftir um 400 milljónum dollara eignarhlut í félaginu, hvers markaðsvirði er um 6,3 milljarðar dollara.
Mun Herbalife hafa boðið fjárfestinum samning um endurkaup á stórum hluta hans í félaginu á síðasta lokagengi bréfa þess, sem þá var 48,05 dollarar, að því er WSJ hefur eftir heimildarmönnum. Að því gefnu að eignarhlutur Icahn fari undir þau mörk sem samningur hans við félagið kveður á um, mun Icahn gefa eftir þau fimm stjórnarsæti sem fulltrúar hans skipa.
Áhrifafjárfestar tókust á
Viðskiptalíkan Herbalife byggir á Tengslamarkaðssetningu (e. Multi Level Marketing) og hefur áhrifafjárfestirinn og mótherji Icahns, William Ackman, haldið því fram að um píramídasvindl sé að ræða. Ackman tók stöðu gegn fyrirtækinu árið 2012 og hóf að níða af því skóinn opinberlega í kjölfarið, en Icahn skoraði hann á hólm með sinni fyrstu fjárfestingu í félaginu hið sama ár.
Fjárfestarnir elduðu saman grátt silfur vegna félagsins allt fram til ársins 2018, þegar Ackman lokaði skortstöðu sinni að mestu, með tapi. Sala Icahn í Herbalife nú þykir innsigla sigur hans gegn Ackman, en hann er talinn hafa hagnast um ríflega milljarð dollara á fjárfestingunni.