Hlutabréfaverð Icelandair hélt áfram að mjakast upp í dag og hækkaði um nærri 3% í 392 milljóna króna viðskiptum í dag. Gengi flugfélagsins endaði daginn í 2,13 krónum á hlut og hefur nú hækkað um þriðjung frá því í lok nóvember þegar það var 1,60 krónur.
Það voru hins vegar fasteignafélögin Reitir og Eik sem hækkuðu mest á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag eða bæði um meira en 3%. Gengi félaganna tveggja hefur hækkað um tæplega 7% í ár og er hlutabréfaverð Eikar nú í methæðum og gengi Reita hefur ekki verið hærra síðan í maí 2018. Gengi fasteignafélagsins Regins hækkaði einnig um 1,2% í dag en er óbreytt frá því í lok desember.
Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka sem hækkuðu um 0,8% í 773 milljóna viðskiptum. Gengi Kviku stendur nú í 24,2 krónum á hlut. Innherji greindi frá því í dag að lífeyrissjóðurinn LSR, stærsti hluthafi Kviku, hefði keypt í bankanum fyrir liðlega 900 milljónir króna í síðasta mánuði.
Næst mesta veltan var með hlutabréf Símans sem hækkuðu um 1,2% í dag. Gengi fjarskiptafélagsins við lokun Kauphallarinnar stóð í 12,3 krónum.
Fjögur félög á aðalmarkaðnum lækkuðu í viðskiptum dagsins en það voru Sýn, Brim, Eimskip og Skeljungur.
Velta á skuldabréfamarkaðnum nam 4,1 milljarði króna. Ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum heldur áfram að hækka.