Gengi meirihluta félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkaði í 4,8 milljarða króna viðskiptum í dag. OMXI10 hlutabréfavísitalan lækkaði um 0,24% í viðskiptum dagsins og stendur í 3.003,75 stigum. Mest velta var með bréf Marel og námu viðskipti með bréfin 1,8 milljörðum króna.

Skeljungur hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, um 4,8% í 12 milljóna viðskiptum. Origo hækkaði um 2% í 8 milljóna viðskiptum. Gengi Haga hækkaði um 1,4% og námu viðskipti með bréfin 180 milljónum króna.

Flugfélagið Icelandair lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, um 4,1%. Viðskipti með bréfin námu 400 milljónum króna. Dagslokagengi félagsins stendur nú í 1,88 krónum á hlut og hefur lækkað um 12% síðastliðinn mánuð.

Gengi allra banka á markaði lækkaði í viðskiptum dagsins. Kvika banki lækkaði um 0,9% í 430 milljóna viðskiptum. Arion banki lækkaði um rúm 0,5% í 870 milljóna viðskiptum og Íslandsbanki um 0,3% í rúmlega 50 milljóna viðskiptum.

Á First North markaðnum lækkaði gengi flugfélagsins Play um 1,3% í 23 milljóna viðskiptum. Solid Clouds hækkaði um 2,5% í 240 þúsund króna viðskiptum og Kaldalón hækkaði um 1% í 700 þúsund króna viðskiptum.