Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,7% í dag er fimmtán af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru rauð í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Icelandair, sem hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu, lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins, eða um 2,2% í nærri 550 milljóna veltu. Gengi Icelandair stendur nú í 2,20 krónum á hlut og er enn 20% hærra en í upphafi árs.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag þá voru hlutabréfamarkaðir víða um heim, og þá sérstaklega evrópskir markaðir, rauðir í dag sem má að stórum hluta rekja til aukinnar spennu á landamærum Úkraínu og Rússlands. Hlutabréf flugfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja voru þau sem lækkuðu hvað mest í dag, samkvæmt BBC . Sem dæmi þá lækkaði gengi IAG, móðurfélag British Airways, um 5,6% í dag.
Sjá einnig: Evrópsk hlutabréf falla
Þá lækkuðu bankarnir þrír sem skráðir eru í Kauphöllina allir í viðskiptum dagsins. Gengi Arion banka lækkaði um 2% í 414 milljóna veltu og stendur nú í 187 krónum á hlut. Þá lækkaði gengi Íslandsbanka um 0,8%, þó í lítilli veltu, og Kviku um 1,6%.
Lækkunin er í samræmi við þróun hlutabréfaverðs annarra evrópskra banka en Stoxx 600 Banks vísitalan lækkaði um meira en 3% í dag. Allir bankarnir sem falla undir þessa evrópsku vísitölu voru rauðir í dag en lánveitendur með hlutfallslega mestu viðskiptin í Úkarínu leiddu lækkanir samkvæmt Bloomberg .
Fjögur félög á aðalmarkaði íslensku Kauphallarinnar hækkuðu í viðskiptum dagsins en það voru Marel, Reitir, Síminn og Skeljungur. Gengi Reita, sem skilar ársuppgjöri síðar í dag, hækkaði um 0,3% í 520 milljóna veltu og stendur nú í 92,25 krónum. Hlutabréfaverð fasteignafélagsins hefur ekki verið hærra síðan í maí 2018.